Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði frá því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi nú fyrir stundu að ákveðið hefði verið að draga breytingatillögu við rammaáætlun til baka. Áður höfðu stjórnarandstæðingar deilt hart á að málið væri enn á dagskrá en þeir vissu ekki um þá ákvörðun.
„Til að leiða fram sem mesta mögulega sátt hefur hæstvirtur umhverfisráðherra gert samkomulag við meirihluta atvinnuveganefndar um að draga til baka tillögu um að setja Hagavatn í nýtingarflokk að sinni svo að menn geta haldið áfram að velta þeim kosti fyrir sér í ró og næði,“ sagði Sigmundur Davíð í svari við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar, þingmanns Bjartrar framtíðar.
Tilkynning forsætisráðherra kom Guðmundi og öðrum stjórnarandstæðingum í opna skjöldu enda höfðu þeir ekki heyrt af ákvörðuninni. Áður en fyrirspurnartíminn hófst hafði fjöldi þeirra kvatt sér hljóðs um fundarstjórn forseta til þess að gagnrýna að breytingatillaga við rammaáætlun væri enn á dagskrá þingsins, þriðja daginn á röð, þrátt fyrir að það væri afar umdeilt mál. Á sama tíma væri fjöldi brýnni mála sem ríkisstjórnin hefði boðað sem kæmist ekki á dagskrá.