Aspartame notkun helst óbreytt

Aspartame er meðal annars að finna í hinum vinsæla drykk, …
Aspartame er meðal annars að finna í hinum vinsæla drykk, Pepsi Max. mbl.is/Kristinn

Íslenskir gosdrykkjaframleiðendur ætla ekki að feta í fótspor bandarískra gosdrykkjaframleiðenda og bjóða upp á sykurlausa gosdrykki án umdeilda sætuefnisins aspartame. Sala á Diet Pepsi dróst saman um 5 prósent á síðasta ári í Bandaríkjunum og yfir 6 prósent á Diet Coke.

Í lok síðasta mánaðar tilkynnti PepsiCo um að frá og með ágúst ætli fyrirtækið að bjóða upp á sykurlausa gosdrykki án sætuefnisins aspartame og sagði Seth Kaufman, aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, í samtali við BBC að aspartame væri helsta ástæða þess að neytendur versluðu ekki eins mikið af sykurlausum gosdrykkjum.

Þegar PepsiCo tilkynnti um ákvörðunina var það þó tekið fram að það væri eingöngu til þess að svara kalli neytenda og að ekki væri með ákvörðuninni verið að viðurkenna að aspartame væri skaðlegt. Þvert á móti væri ekkert sem benti til skaðsemi sætuefnisins.

Neytendum þykja valkostirnir góðir

Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri markaðssviðs Vífilfells, segir að hérlendis hafi þróunin verið á þá leið að dregið hafi úr sölu sykraðra gosdrykkja á undanförnum árum.

„Það má að mestu leyti rekja til almennra neyslubreytinga og aukinna vinsælda ýmiss konar vatnsdrykkja. Á þessum tíma hefur sala á gosdrykkjum á Íslandi með sætuefnum aukist lítillega,“ segir Stefán og vísar þar m.a. til drykkjanna Coke light, Coke Zero og Sprite Zero.

Hann segir að ekki standi til að breyta um sætuefni í fyrrnefndum drykkjum en aukin sala bendir til þess að neytendum þyki þeir góðir valkostir. „Þau sætuefni sem Coca-Cola fyrirtækið notar í sykurlausa drykki eru talin örugg af matvælayfirvölum í yfir 100 löndum, þar á meðal matvælaeftirliti Evrópusambandsins,“ segir hann og bætir við að alltaf sé fylgst með breyttum kröfum neytenda með tilliti til bragðs, hitaeininga og innihalds, og vörur þróaðar sem henta lífsstíl neytenda.

Guðni Þór Sigurjónsson, vöruþróunarstjóri hjá Ölgerðinni, tekur í sama streng og Stefán. Hann segir þróunina í drykkjum sem innihalda aspartame hafa verið stöðug og engar stórar sveiflur þar á ferð. 

„Aspartame, sem er eitt mest rannsakaða efni sinnar tegundar í heiminum, er í nokkrum vörum frá Ölgerðinni. Þekktasta varan er líklega Pepsi Max en sætuefnið má jafnframt finna í sykurlausu Appelsíni, V-íþróttadrykkjunum og sykurlausu appelsínuþykkni,“ segir Guðni.

Hann segir Ölgerðina fylgjast afar náið með þróun matvælaöryggismála og í þessu tiltekna máli sé fylgt ströngustu reglum EFSA, matvælaöryggisstofnunar Evrópu.

„Rétt er að benda á að EFSA sendi frá sér tilkynningu árið 2013 þess efnis að aspartame, eitt mest rannsakaða efni sinnar tegundar í heiminum, væri með öllu hættulaust,“ segir Guðni.

Sætuefnið aspartame finnst í fjölda sykurskertra matvæla og hafa skiptar …
Sætuefnið aspartame finnst í fjölda sykurskertra matvæla og hafa skiptar skoðanir verið um hollustu þess. mbl.is/Þorvaldur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert