Sparnaður í vexti í stað höfuðstóls

Greiðslur til lækkunar höfuðstóls fóru í að greiða niður vexti.
Greiðslur til lækkunar höfuðstóls fóru í að greiða niður vexti. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fjölmörg dæmi eru um að séreignarlífeyrissparnaður sem fara átti inn á höfuðstól húsnæðislána til lækkunar í samræmi við lög um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána, hafi þess í stað farið í að greiða niður vexti á lánunum. Fyrir vikið hafa viðkomandi greitt lægri afborganir í stað þess að höfuðstóll lækki. Um er að ræða kerfislegt vandamál að sögn forsvarsmanna lánastofnana. Sérstaklega bar á þessu við fyrstu greiðslur en þá skiptu uppsafnaðir vextir jafnvel tugum þúsunda og lækkaði afborgun því þann mánuð sem því nemur. Kom málið upp hjá nokkrum lánastofnunum en komið hefur verið í veg fyrir það hjá öllum nema Íbúðalánasjóði samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.

35 þúsund kr. í vexti

Fram kemur á nokkrum greiðsluseðlum frá Íbúðalánasjóði sem Morgunblaðið hefur undir höndum að viðkomandi greiðandi greiddi 3-35 þúsund krónur í vexti í stað þess þeir færu inn á höfuðstól í hvert skipti. Samkvæmt lögum um leiðréttingu átti hver sem fékk samþykki þess efnis hjá ríkisskattstjóra að geta sett séreignarsparnað inn á höfuðstól húsnæðislána skattfrjálst. Þó var tekið fram að ef viðkomandi var í vanskilum þá færi séreignarsparnaður í að greiða niður þau vanskil. Hjá flestum lánastofnunum var gerlegt greiða inn á höfuðstólinn með séreignarsparnaði í desember síðastliðnum. Í þeim tilvikum sem hér er vísað til var ekki um vanskil að ræða og því áttu greiðslurnar með réttu að fara beint inn á höfuðstól.

Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra, segir að vandamálið helgist af því að kerfi lánveitenda hafi ekki ráðið við að koma sparnaðinum inn á höfuðstólinn. „Þetta er nær eingöngu bundið við Íbúðalánasjóð núna,“ segir Jarþrúður. Hún segir að vandamálið hafi verið viðvarandi þar frá því úrræðið var kynnt. Hún segir að nokkuð hafi verið um að fólk hafi haft samband og lýst óánægju sinni vegna þessa.

Tæknilegt vandamál

Gunnhildur Gunnarsdóttir, sitjandi forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að vandamálið sé tæknilegs eðlis. „Þetta er alfarið tæknilegt mál hjá okkur. Þetta snýr að Reiknistofu bankanna (RB) þar sem öll okkar skuldabréf eru vistuð og hvernig greiðsluröðun er háttað þar. Í lögunum er mælt fyrir um það að greiðslur eigi að fara inn á höfuðstól og við leitumst að sjálfsögðu eftir því að gera það. Því höfum við beint til viðskiptavina okkar að greiða á gjalddaga. Síðan er greiðslum frá lífeyrissjóðum ráðstafað á 1-3 dögum síðar. Því er vaxtatímabilið eingöngu sá tími, 1-3 dagar. Við höfum gripið til þessara leiða að takmarka þetta eins og hægt er og reynt að koma til móts við fólk og leyfa því að greiða inn á lánin sem nemur vaxtaupphæðinni en það hefur ekki verið mikið um að fólk hafi óskað þess,“ segir Gunnhildur. Að sögn hennar fara greiðslur í RB fyrst í að greiða kostnað, svo vanskil, þá áfallna vexti og síðast til lækkunar á höfuðstól.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert