Vonast eftir lendingu fjótlega

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við höfum verið að vinna í miklu samráði við aðila vinnumarkaðarins og ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar allra að leysa úr deilunum þar. Það samráð sem snýr að húsnæðismálunum hefur aðstoðarmaður minn leitt í góðu samstarfi við fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins og ég vonast til þess að sú vinna leiði til niðurstöðu fljótlega.“

Þetta segir Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra í samtali við mbl.is vegna frumvarpa hennar um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt húsnæði og húsnæðisbætur. Fyrrnefnda frumvarpið var lagt inn í fjármálaráðuneytið til kostnaðarmats en þeirri vinnu hefur verið hætt. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að ástæða þess væri sú að komið hefði ljós að unnið væri að breytingum á frumvarpinu. Ekki hafi því verið talin ástæða til þess að halda þeirri vinnu áfram fyrr en endanleg útgáfa frumvarpsins lægi fyrir. Eygló bendir á að fjármálaráðuneytið hafi staðfest að frumvarpið hafi ekki verið dregið til baka líkt og greint var frá í fjölmiðlum í síðustu viku.

„Við höfum talið mjög mikilvægt að fá kostnaðarmat á það frumvarp sem við lögðum fram þannig að við gætum mátað það við þær hugmyndir sem aðilar vinnumarkaðarins væru með og þann kostnaðarauka sem það myndi fela í sér. En við erum hins vegar saman í því að byggja hér upp félagslegt húsnæðiskerfi í miklu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og þar eru undir frumvörp um stofnframlög og húsnæðisbætur og kjarninn í því er hvernig hægt er að styðja við bakið á efnaminni fjölskyldum í landinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert