Má ekki heita Prinsessa

Ekki er hægt að heita Prinsessa Ethansdóttir hér á landi.
Ekki er hægt að heita Prinsessa Ethansdóttir hér á landi. AFP

Mannanafnanefnd hefur hafnað því að skrá kvenmannsnöfnin Prinsessa og Gail í mannanafnaskrá en samþykkt nafnið Tíalilja. Karlmannsnöfnin Kvasir og Góði voru samþykkt en nafninu Ethan var hafnað.

Í úrskurðum nefndarinnar frá 24. apríl sl. segir meðal annars að orðið prinsessa sé samnafn sem þarfnast ekki sérstakrar útskýringar, enda vel þekkt í íslensku máli. Allmörg dæmi eru um það í íslensku að samnöfn séu notuð sem mannanöfn, t.d. Hrafn. Samnöfn sem merkja titla eða starfsheiti (t.d. biskup, ráðherra, forseti, kóngur, drottning, prestur o.s.frv.) eru hins vegar ekki notuð sem sérnöfn.

Undantekning er orðið Jarl sem á sér langa sögu í tungumálinu og hefur þannig áunnið sér hefð sem eiginnafn. Mannanafnanefnd telur ljóst, miðað við hefðir íslensks máls, að mannanöfn af þessu tagi séu ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Nefndin lítur því svo á að óheimilt sé að fallast á eiginnafnið Prinsessa.

Eiginnafnið Góði (kk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Góða, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Ekki var hægt að fallast á nafnið Ethan þar sem ritháttur nafnsins er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem engin dæmi eru um það í almennu íslensku ritmáli að h sé ritað á eftir t í ósamsettum orðum. Á þennan rithátt nafnsins er því aðeins heimilt að fallast ef hann telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands bera sjö drengir nafnið Ethan í þjóðskrá sem uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna og er sá elsti fæddur árið 1999. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920. Rithátturinn Ethan er því ekki hefðaður í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert