Samtök atvinnulífsins breyttu tilboðinu

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.

„Staðan er einfaldlega mjög erfið. Það slitnaði upp úr viðræðum hjá ríkissáttasemjara í gær þrátt fyrir að við höfum lagt fram nýja nálgun á lausn þessarar kjaradeilu,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR sem í gær sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins.  

„Það veldur okkur mjög miklum vonbrigðum að SA-menn hafi slegið á hendi okkar og ekki viljað ræða þetta neitt frekar og við teljum það reyndar mjög óábyrgt af þeim.“

Rúm vika er síðan  VR, Flóabandalagið og Landssamband íslenskra verslunarmanna fékk í hendur tilboð frá Samtökum atvinnulífsins sem Ólafía var afar jákvæð fyrir. Í samtali við Rúv sagði Ólafía vert að skoða tilboðið og að hún væri frekar bjartsýn og liggur því beint við að spyrja hana hvað hafi breyst. 

„Þeir breyttu einfaldlega tilboðinu á þessum tíma,“ segir Ólafía. „Upprunalega tilboðið sem þeir lögðu fram, eða hugmyndafræðin, gat komið sér nokkuð vel fyrir skrifstofuhópa VR. Þeir breyttu þessari hugmyndafræði þegar ljóst var að þetta kæmi sér vel fyrir þessa hópa með þessum hætti þannig að tilboðið varð gjörsamlega óásættanlegt, þess vegna varð ég fyrir miklum vonbrigðum.“

Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað nýjan fund í deilunni og segir Ólafía óljóst hvenær það gerist. Fé­lags­menn VR samþykktu í gær verk­fallsaðgerðir sem hefjast 28. maí næst­kom­andi, hafi samn­ing­ar ekki náðst fyr­ir þann tíma. 

Segja SA bjóða launalækkun

Í pistli sem birtist á heimasíðu Eflingar í dag er framsetning tilboðs Samtaka atvinnulífsins sögð byggjast á rangfærslum og að samtökin beri ábyrgð á þeim víðtæku verkföllum sem nú stefnir í. 

„Samtök atvinnulífsins hafa sett fram tilboð þar sem þau telja sig bjóða fram 23,5% hækkun dagvinnulauna í yfirstandandi samningaviðræðum. Þá hafa samtökin lagt fram breytingar á vinnutímaákvæðum samninga þar sem dagvinnutímabil er lengt um þrjár klukkustundir, matar- og kaffitímar aflagðir og breytingar lagðar til á álagsgreiðslum en við útreikning á þessu tilboði kemur fram að þetta stenst engan veginn skoðun og margt launafólk er að fá lítið sem ekkert út úr tilboðinu. Þannig eru dæmi um að launamenn komi út með hreina launalækkun,“ segir á heimasíðu Eflingar og er því bætt við að einungis hafi tekið SA nokkrar mínútur að hafna gagntilboði stéttarfélaganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert