Loka þyrfti öllum verslunum Bónuss

Bónus
Bónus mbl.is/Hjörtur

Öllum verslunum Bónuss á landinu verður lokað ef af verkfallsaðgerðum VR, Flóabandalagsins og LÍV verður um mánaðamótin. Frá miðnætti 2. júní til miðnættis 3. júní leggja starfsmenn matvöruverslana sem eru í fyrrgreindum félögum niður störf sín náist ekki að semja og er ljóst að áhrifin verða þá gríðarleg. Starfsemi olíufélaganna mun jafnframt skerðast verulega í verkfallsaðgerðum sem hafa verið boðaðar 4. og 5. júní næstkomandi. Allsherjarverkfall félaganna hefst 6. júní náist ekki að semja.

„Eins og staðan er núna stefnir í að allar verslanir okkar verði lokaðar þessa tvo daga,“ segir framkvæmdastjóri Bónuss, Guðmundur Marteinsson, í samtali við mbl.is en verslanir Bónuss hér á landi eru 29 talsins. Hann segir erfitt að meta hversu mikið tap verður af lokununum. „Það er alltaf slæmt að þurfa að loka en við þurfum bara að skoða áhrifin eftir á.“

Að sögn Stefáns Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra VR, eru fjölmargir starfsmenn matvöruverslana meðlimir í félaginu. Því má gera ráð fyrir að stór hluti matvöruverslana landsins þurfi að gera það sama og Bónus verði af verkfallsaðgerðunum. „Þegar starfsfólkið leggur niður störf reikna ég með því að það þurfi að loka verslunum,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Eldsneytið gæti klárast

Forstjóri Skeljungs, Valgeir Baldursson, segir að áhrif verkfallsaðgerðanna fyrir olíufélagið verði mest á dreifingu eldsneytis. „4. júní fara starfsmenn okkar í dreifingu í tveggja daga verkfall og svo hugsanlega allsherjarverkfall 6. júní. Útkoman úr því er að engri olíu verður dreift á stöðvar Skeljungs og það getur því endað með því að olían klárist á einhverjum stöðvum.“

Valgeir telur að áhrifin verði svipuð hjá hinum olíufélögunum. Fyrir utan starfsmenn dreifingar fara starfsmenn stöðvanna einnig í verkfall. Það þýðir að engin þjónusta verður á bensínstöðvum Skeljungs fyrir utan að opið verður í verslun. „10-11 rekur okkar verslanir þannig að þessar aðgerðir hafa ekki áhrif á verslunina sjálfa. En til dæmis verður enginn til þess að dæla fyrir þá sem það kjósa,“ segir Valgeir en bendir á að langflestir viðskiptavinir Skeljungs notist við sjálfsafgreiðslustöðvar.

„Við erum með sjálfsafgreiðslubúnað á öllum okkar stöðvum þannig að allir geta afgreitt sig sjálfir. En þegar starfsmenn dreifingar leggja niður störf getur vel verið að bensínið klárist á einhverjum stöðum.“

Valgeir er áhyggjufullur vegna verkfallanna og telur að aðgerðirnar muni lama samfélagið. „Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessum aðgerðum og það sama hlýtur að eiga við um alla aðra. Við erum ekki aðeins að tala um eldsneyti heldur matvörubúðir og fleira. Þetta verður örugglega alveg skelfilegt.“

Upp undir 60.000 manns taka þátt í verkfallsaðgerðum VR, LÍV ...
Upp undir 60.000 manns taka þátt í verkfallsaðgerðum VR, LÍV og Flóabandalagsins.
Eldsneyti gæti klárast á sumum bensínstöðvum.
Eldsneyti gæti klárast á sumum bensínstöðvum. mbl.is
Valgeir hefur gríðarlegar áhyggjur af verkfallsaðgerðum komandi vikna.
Valgeir hefur gríðarlegar áhyggjur af verkfallsaðgerðum komandi vikna. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina