Vinsælt að gifta sig á Íslandi

„Ég set mér þá vinnureglu að hafa ekki fleiri en eitt brúðkaup á dag, svo að stemningin verði ekki eins og í Las Vegas. Ef ekki er haldið í hátíðleikann í kringum athöfnina er hætta á því að þetta verði eins konar færiband,“ segir séra Páll Ágúst Ólafsson, sóknarprestur í Staðastaðarprestakalli, sem Búðakirkja tilheyrir. Hægt sé að halda þrjú til fjögur brúðkaup á dag en þannig vilji hann ekki vinna, og þurfi hann því vikulega að hliðra til brúðkaupum. Hann segist finna fyrir gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna sem koma til Íslands til að ganga í hjónaband, og annasömustu mánuðina, sem ná frá júlí til og með október, komi hann til með að gifta á nánast hverjum degi. Bókanir hafa þegar borist til ársins 2017.

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup Skálholtsumdæmis, tekur í sama streng og segir mikla ásókn í að ganga í hjónaband hér á landi, víðar en á Snæfellsnesi. „Það er alveg ljóst að þeim fjölgar sem koma hingað til lands að láta gifta sig, bæði kirkjulega og borgaralega. Það hefur fjölgað mikið síðustu tíu árin en verulega mikið síðustu fimm árin.“

Sýslumaðurinn á Vesturlandi staðfestir að mikið sé um hjónavígslur ferðamanna á svæðinu. Það sem af er ári hafi útgáfa könnunarvottorða vegna giftinga á Snæfellsnesi verið mjög mikil, en embættið gefur út slík vottorð þegar a.m.k. annar aðilinn er ekki hérlendur ríkisborgari. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir hjá embættinu, né hjá Hagstofu.

Upplifa sig ein í heiminum

„Á Snæfellsnesi ertu með nánast allt það besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. Þú ert með jökulinn, hraunið, hvíta og svarta strönd, dásamlegar fjallalengjur, fossa og fleira til,“ segir Páll. Hann segir að síðan hann byrjaði að vinna fyrir vestan fyrir rúmu ári hafi fjöldi ferðamanna sem hann giftir meira en tvöfaldast. „Fyrsta árið var ég með fjörutíu og núna er ég með fleiri en áttatíu brúðkaup bókuð, og það í maí.

Það átta sig ekki allir á að langfæstir ferðamenn sem koma til landsins gera sér ferð út á Snæfellsnes, þannig að þegar fólk kemur hingað til að gifta sig upplifa hjónin sig næstum því ein í heiminum.“

Meðal fleiri vinsælla áfangastaða nefnir Páll Skógafoss, Seljafoss, Þingvelli og Þórsmörk.

Margföldunaráhrif internetsins

Á alnetinu má finna ófáa lista yfir rómantískustu áfangastaði heims. „Snæfellsnes var valið einn af tíu rómantískustu stöðum til að gifta sig á í heiminum, þetta var einhver erlendur listi sem ég frétti af.“

Meðal erlendra fjölmiðla sem hafa bent á Snæfellsnes sem rómantískan áfangastað er The Guardian, og er Búðakirkja þá sérstaklega nefnd. „Síðan spila margföldunaráhrif internetsins gríðarlegan þátt í þessu. Það þarf ekki nema tvö eða þrjú brúðkaup á svona framandi stað og myndir af þeim á netið. Svo flettir ef til vill einhver upp „spennandi brúðkaup“ eða einhverju þess háttar og fær á skjáinn myndir af norðurljósum frá Búðum. Þannig vindur þetta upp á sig.“

Páll segir flesta erlenda ferðamenn sem gifta sig í Búðakirkju vera úr röðum Breta, Bandaríkjamanna og Kínverja.

Hagstæðara að gifta sig á Íslandi

Samkvæmt áðurnefndum lista The Guardian kosta brúðkaup á Bretlandi um 21 þúsund pund að meðaltali, eða rúmar 4,8 milljónir íslenskra króna. „Verðlagið hérlendis skemmir heldur ekki fyrir. Fólk getur boðið allri fjölskyldunni sinni til Íslands og leigt Hótel Búðir yfir eina helgi en borgað samt töluvert minna en í heimalandi sínu,“ segir Páll.

„Síðan finnst fólki kannski spennandi að geta gift sig í hvaða kirkju sem er, þar sem í Bretlandi, til dæmis, má bara gifta sig á ákveðnum brúðkaupsstöðum.“

Náin athöfn og eigin heit

Páll segir skemmtilegt að taka eftir ólíkum venjum Íslendinga og erlendra ferðamanna þegar kemur að hjónavígslum.

„Mér finnst mjög skemmtileg sú hefð, sem er víða erlendis, að fara með sín eigin heit, en ekki bara svara spurningum prestsins. Oft er líka engin áhersla á tónlist, heldur meiri áhersla á upplifun þeirra tveggja, sem gerir þetta svo náið.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »