Bjarni: Staðan aldrei verið sterkari

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að Íslendingar hafi aldrei áður verið í sterkari stöðu efnahagslega séð, en hann tekur fram að það sé ekki sjálfgefið að úr öllum tækifærum landsmanna rætist.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Bjarna, þar sem hann vísar í ítarlegt viðtal sem hann er í á Eyjunni.

„Ég er þeirrar skoðunar að í dag séu Íslendingar í sterkustu stöðu sem við höfum nokkru sinni verið í, séð frá efnahagslegu sjónarmiði,“ segir Bjarni í viðtalinu. 

Þegar hann er spurður hvort hann eigi við eftir hrun eða frá upphafi svarar Bjarni:

Bara nokkru sinni. Góðærisárin fyrir hrun voru byggð á gríðarlega miklum viðskiptahalla, það hlaut að þurfa að koma leiðrétting út af því. Annað hvort í gegnum gengið eða með öðrum hætti, sem að það gerði. En ef við berum okkur saman við þann tíma í dag, þá erum við í fyrsta lagi með hærri landsframleiðslu, meiri kaupmátt og við erum með jöfnuð í viðskiptum við útlönd og undirstöðuatvinnugreinarnar, þær standa allar betur en þær gerðu þá,“ segir hann ennfremur.

Bjarni er einnig spurður út í frumvörp sem hann hefur verið með í smíðum um afnám gjaldeyrishafta sem hann hyggst brátt leggja fram á Alþingi. Hann tekur fram að aðgerðir stjórnvalda feli ekki í sér að höftin verði afnumin að fullu á þessu ári, en þær muni þó leysa langstærstu ógnirnar við haftaafnámsferlið á þessu ári. Hann áætlar að stöðugleikaskattur skili hundruðum milljarða í þjóðarbúið.

Aðspurður segir hann að ástandið á vinnumarkaði núna setji ákveðið óveðursský yfir þann árangur sem hafið náðst í efnahagsmálum, þ.e. lægri verðbólgu, lækkandi vöxtum, auknum kaupmætti, hallalausum ríkisrekstri og því að sveitarfélög séu farin að greiða niður skuldir.

„Við skulum vona að það rætist vel úr kjaraviðræðunum,“ segir Bjarni í samtali við Eyjuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina