Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað Bryndísi Hlöðversdóttur í embætti ríkissáttasemjara til næstu fimm ára. Bryndís var önnur þeirra tveggja umsækjenda sem taldir voru hæfastir til að gegna embættinu að áliti sérstakrar nefndar sem ráðherra skipaði til að leggja mat á hæfni umsækjenda.
Bryndís tekur við embætti ríkissáttasemjara 1. júní næstkomandi af Magnúsi Péturssyni sem gegnt hefur embættinu frá árinu 2008. Ráðherra þakkar Magnúsi fyrir störf hans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Bryndís Hlöðversdóttir er lögfræðingur að mennt. Hún starfaði hjá Alþýðusambandi Íslands 1992-1995, var þingmaður Samfylkingarinnar 1995-2005, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst 2005-2011, aðstoðarrektor skólans frá 2006 og rektor 2011-2013. Frá árinu 2013 hefur Bryndís verið starfsmannastjóri Landspítalans.
Auk framantalinna starfa hefur Bryndís setið í stjórnum Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Eignasels, eignaumsýslufélags nýja Kaupþings og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Á árunum 2010-2013 var hún varamaður í Félagsdómi, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands.
Í niðurstöðu hæfnisnefndar segir að helstu styrkleikar Bryndísar séu reynsla hennar af störfum þar sem reynt hefur á leiðtogahæfileika hennar, auk þekkingar hennar á kjarasamningsumhverfinu í störfum sínum sem lögfræðingur Alþýðusambands Íslands: „Jafnframt er ljóst að Bryndís hefur notið trausts í störfum sínum þar sem henni hefur meðal annars verið falið að gegna störfum sem þingflokksformaður og falin seta í stjórnum fyrirtækja. Þá mun án efa reynsla hennar af þátttöku í stjórnmálum geta nýst henni í starfi sem ríkissáttasemjari. Nefndin metur Bryndísi mjög vel hæfa til að gegna embætti ríkissáttasemjara“ segir í áliti hæfnisnefndarinnar sem skipuð var Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu, Magnúsi M. Norðdal fulltrúa samtaka launafólks og Hrafnhildi Stefánsdóttur fulltrúa samtaka atvinnurekenda. Í niðurstöðu hennar segir enn fremur að þótt nefndin telji tvo umsækjenda um embættið mjög vel hæfa til að gegna því gefi fjölbreyttari reynsla Bryndísar henni ákveðið forskot til að gegna embættinu.
Ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og atvinnurekenda. Skal þess því gætt að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda, líkt og fram kemur í 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur.