Bjargaði Steingrími og Matthíasi úr brennandi tjaldi

Þorkell Zakaríasson.
Þorkell Zakaríasson.

Þorkell Zakaríasson er 100 ára í dag, 29. maí 2015, en hann er síðast kenndur við Brandagil í Hrútafirði.

Hann fæddist á Bæ í Króksfirði, sonur hjónanna Zakaríasar Einarssonar og Guðrúnar Guðmundsdóttur, einn af 15 systkinum, en tvö dóu ung. Þorkell býr nú á Heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga, ótrúlega ern, minnugur og með góða heyrn, en sjónin að mestu farin.

Foreldrar hans voru ávallt leiguliðar og fluttu oft heimilið, en síðast að Gili í Bolungarvík. Þorkell ólst upp á Guðlaugsvík í Hrútafirði frá 12 ára aldri til tvítugs. Hann stundaði vegavinnu um áratugaskeið, fyrst sem verkamaður á Holtavörðuheiði sumarið 1935, og segist hafa verið eftirsóttur til að byggja ræsi úr steinsteypu. „Þau biluðu aldrei, ræsin mín,“ segir hann sposkur, og gefur í skyn að önnur hafi ekki reynst eins vel.

Fékk prófið hjá Bíla-Bergi

Þorkell keypti snemma vörubifreið, FORD 1942 árgerð, trúlega með 3-4 tonna burðargetu. Þá var hann ekki kominn með bílpróf, en fór á Akranes til að taka það. „Ef þú getur bakkað milli þessara tveggja bíla, með jafnt bil á milli, þá færðu prófið, sagði Bíla-Bergur við mig, og ég gerði það.“

Þorkell stundaði akstur eigin vörubíla mestallan sinn starfsaldur; vegagerð, mjólkurflutninga úr V-Hún til Blönduóss og Borgarness, kjötflutninga frá Óspakseyri og annað sem til féll. „Vetrarakstur með mjólk til Blönduóss var oft mjög erfiður, þurfti að moka snjó víða í Línakradal, bölvað puð,“ segir Keli.

Skemmtileg minning kemur fram: „Það var þegar við Böðvar á Þóroddsstöðum fórum á tveimur boddíbílum sem ég átti, með um 30 manns um Bröttubrekku á hestamannamót að Nesodda í Dölum. Þá var mikið sungið og hlegið, ég held það hafi ekki verið tími til að skoða hestana. Og svo var farið á ball í Hreðavatni.“

Syngur á föstudögum

Söngur og ljóðaflutningur er Kela hugleikinn, hann kann reiðinnar býsn af ljóðum, og Hrútfirðingar minnast vel réttardaga við Síká, þegar Keli sat í kaffiskúrnum og söng langtímum saman. Enn syngur hann flesta föstudaga á dvalarheimilinu, og fær gjarnan vini sína með sér.

Þorkell byggði sér íbúðarhús, Hveravík, á Reykjatanga, lauk byggingunni árið 1954 og kvæntist það ár Jóhönnu Sigurðardóttur frá Neðra-Vatnshorni. Eiga þau soninn Sigurð og þrjú barna- og barnabarnabörn.

Síðar fluttu þau á hluta jarðarinnar Brandagil í Hrútafirði. Þar hafði hann kindur í húsum í nokkurri fjarlægð frá íbúðarhúsinu. Sjónin var farin að dofna mjög, en með ráðsnilld sinni setti hann hvítar plastfötur á girðingarstaurana, svo hann gat ekið á milli, utan vegar. Á efri árum hirti hann sauðfé fyrir Staðarbændur í um áratug.

Mikilvæg björgun

Að lokum kom saga: Matthías Johannessen og Steingrímur Hermannsson voru ungir drengir í vegavinnu á Vatnsskarði. Um nóttina kviknaði í tjaldi þeirra, en Keli var á heimleið frá Sauðárkróki. Hann segist halda að þarna hefði orðið slæmt slys, ef hann hefði ekki náð tjaldbúum út. „Svo varð hann helvíti gott skáld, hann Matthías,“ segir Þorkell og hlær dátt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert