„Þetta er náttúrlega drullufúlt“

Snædís útskrifast sem stúdent úr MH á morgun.
Snædís útskrifast sem stúdent úr MH á morgun. Mynd úr einkasafni

Snædís Rán Hjartardóttir er ein af fjölmörgum sem útskrifast sem stúdent úr MH í dag. „Ég á tvær dætur og sú eldri er að útskrifast. Þær eru báðar með sama sjúkdóminn, samræmda sjón- og heyrnaskerðingu og þurfa túlka í allt sem þær gera,“ sagði Bryndís Snæbjörnsdóttir, móðir Snædísar, í samtali við mbl.is. „Snædís fær túlk í útskriftina sjálfa, enda er það hluti af lögbundinni skyldu um menntun. Eftir það ætlum við að halda veislu en það fást ekki túlkar þangað.“

„Á hún að reyna að hlæja á réttum stöðum?“

Bryndísi finnst það leiðinlegt, enda kunna ekki allir veislugestir táknmál. „Ég ætla að halda ræðu og veit ekki hvernig ég á að gera það. Á ég að skrifa hana fyrst og leyfa henni að lesa og síðan reynir hún að hlæja á réttum stöðum þegar hún heldur að ég sé að segja eitthvað sniðugt? Hún mun allavega ekki geta haft samskipti við gesti í veislunni sem hún er að bjóða í og þá veltir hún fyrir sér til hvers hún sé að halda veislu. Ef hún getur ekki talað við gestina, sem hún getur ekki. Það er dálítið skítt og það er líka dálítið skítt að lögin kveða á um ákveðna lögbundna túlkun sem snýr að menntun.“

Túlkaþjónustan nær aðeins yfir tíma en ekki frímínútur og skólastarf utan kennslustunda. Bryndís skilur ekki til hvers það sé verið að mennta fólk ef það getur ekki nýtt menntunina til að geta átt samskipti og samfélag við annað fólk. „Þetta er náttúrulega drullufúlt.“

Verið að auka angist fólks

Sjóður túlkaþjónustunnar er tómur og því fæst ekki túlkur á morgun. „Það er þannig að þetta er tvískipt, þeir sinna þessari lögbundnu þjónustu og svo er félagslegur túlkasjóður sem heyrnalaust fólk getur beðið um túlk sem það þarf ekki að greiða fyrir. Sá sjóður er búinn og það var þannig að hann var oft búinn í október, svo það var enginn túlkur í tvo og hálfan mánuð. Núna ákvað menntamálaráðherra að breyta reglunum þannig að sjóðurinn klárast ársfjórðungslega. Núna er búið fyrir þennan ársfjórðung þannig að það verður ekki úthlutað úr sjóðnum fyrr en eftir 30. júní. Í stað þess að fá angistarkast einu sinni á ári yfir því að geta ekki verið þátttakandi í samfélaginu þá er verið að auka angistina því þú hefur þetta hangandi yfir þér oftar á ári. Mér finnst það eitt og sér alveg ótrúleg ráðstöfun, illa ígrunduð og sálfræðilega vafasöm.“

Vegna þess sjúkdóms sem Snædís er með þarf hún að ráða aðstoðarfólk til sín. „Hún var með atvinnuviðtöl í gær, með enga túlka. Aðstoðarfólkið hennar er ekki rosalega klárt í táknmáli þannig að hún þurfti að vera með tölvuskjá fyrir framan sig og þurfti að eiga samtalið þannig sem gengur miklu hægar og er allt annað en að eiga samtal í gegnum túlk. Hún var mjög ósátt við þetta en það var ekkert annað í boði.“

Málaferli gegn menntamálaráðuneyti

Eina leiðin til að fá túlk í útskriftarveisluna er að borga fyrir hann úr eigin vasa. „Við þyrftum að borga fyrir hann sjálf og það kostar 10 þúsund krónur fyrir klukkustund.“ Bryndís sagði að Snædís hafi nokkrum sinnum pantað túlka og borgað fyrir þá úr eigin vasa þegar sjóðurinn tæmdist í fyrra. „Síðan fékk hún kvittanir fyrir þeim túlkunum sem hún borgaði sjálf og fékk sér lögfræðing og hún er búin að fara í mál við menntamálaráðuneytið og samskiptamiðstöð og það verður tekið fyrir í Héraðsdómi 8. júní. Við höfum lent í þessu oft áður og enginn hefur treyst sér í þessi málaferli. Núna ákvað hún að fara í þetta, það yrði einhver að gera þetta. Við höfum góðan lögfræðing sem styður hana í þessu.“

Bryndís er gríðarlega stolt af dóttur sinni. „Snædís er mjög klár, algjör toppnemandi. Fór í gegnum MH á fimm árum og fékk mjög góðar einkunnir. Sorglegt að hún sé búin að mennta sig en geti síðan ekki tekið fullan þátt í samfélaginu vegna þess að hún fái ekki túlk. Það eiga allir að fá tækifæri í lífinu, það er mjög mikilvægt.“

mbl.is