„Stórfelld“ brot í SPRON-máli

SPRON.
SPRON. mbl.is/Rax

Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi stjórnarmönnum og sparisjóðsstjóra SPRON hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fjórir fyrrverandi stjórnarmenn SPRON, þau Ari Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Rannveig Rist, sem og fyrrverandi sparissjóðstjóri SPRON, Guðmundur Örn Hauksson, eru ákærð í málinu fyrir umboðssvik.

Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga þegar þau samþykktu á stjórnarfundi SPRON hinn 30. september 2008 að veita hlutafélaginu Existu tveggja milljarða króna peningamarkaðslán án trygginga og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu félagsins í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins.

Lánið var framlengt fjórum sinnum og var síðasti gjalddagi þess 16. mars 2009. Það var ekki greitt til baka og segir í ákæru sérstaks saksóknara og það verði að telja það sparisjóðnum að fullu eða að verulegu leyti glatað.

Telur saksóknari óhjákvæmilegt að líta svo á að brot ákærðu hafi verið stórfelld.

Ákærðu hafa öll neitað sök.

Snúningurinn í málinu

Fram kemur í ákæru sérstaks saksóknara að aðdragandi umræddrar lánsbeiðni Existu hafi verið sá að 18. september 2008 veitti VÍS peningamarkaðslán til Existu að fjárhæð fjórir milljarðar króna. Var lánið fyrst framlengt til 29. september og síðan framlengt um einn dag, til 30. september. Exista endurgreiddi lánið til VÍS þann dag, 30. september, en sú endurgreiðsla var að helmingi fjármögnuð með því láni SPRON til Existu sem ákært er fyrir í þessu máli.

Sama dag, 30. september, veitti VÍS SPRON peningamarkaðslán að fjárhæð tvær milljónir króna. Þeir fjármunir voru aftur notaðir af hálfu SPRON til að fjármagna lán, sömu fjárhæðar, til Existu, sem ákært er fyrir. Engar tryggingar voru þó teknar í láni VÍS af hálfu SPRON til að tryggja endurgreiðslu á láninu til Existu. Eftir þennan snúning var staðan sú að áhætta VÍS gagnvart Existu hafði minnkað um tvo milljarða, en í staðinn hafði SPRON veitt Existu tryggingalaust lán að sömu fjárhæð.

Telur saksóknari því að áhættunni af tveggja milljarða króna láni til Existu hafi þannig verið velt af VÍS og yfir á SPRON, sem hafi síðan setið uppi með fullt tjón vegna lánsins.

Stjórnarformaðurinn vék af fundi

Eins og áður sagði var lánið samþykkt á fundi stjórnar SPRON þann 30. september 2008 og greitt til Existu sama dag. Ákærðu Ari Bergmann, Jóhann Ásgeir, Margrét og Rannveig samþykktu lánið á fundinum en Erlendur Hjaltason, formaður stjórnar sparisjóðsins, vék af fundinum þegar ákvörðunin var tekin, en hann var á þessum tíma forstjóri Existu. Ákærði Guðmundur Örn kynnti fyrirhugaða lánveitingu fyrir stjórninni og bar ábyrgð á útgreiðslu lánsins.

Lánið „mjög óvenjulegt“

Fram kemur í ákærunni að lánið, sem ákært er fyrir, hafi verið eina lánið sem samþykkt var af stjórn sparisjóðsins á árunum 2007 og 2008. Það hafi því verið „mjög óvenjulegt“ að stjórn sparisjóðsins tæki slíka ákvörðun, enda lánið afar stórt miðað við fjárhag sparisjóðsins. Full ástæða hafi verið fyrir stjórnarmeðlimi að fara varlega við ákvörðun sína og fara eftir öllum reglum vegna slíkra lánveitinga, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem upp var komin á fjármálamörkuðum 30. september 2008, daginn eftir að ákveðið var að þjóðnýta Glitni.

Sérstakur saksóknari telur hins vegar að því hafi farið fjarri að ákærðu hafi farið eftir þeim varúðarreglum sem þeim bar skylda til í störfum sínum. Þvert á móti hafi lánið verið veitt án nokkurra trygginga og þá hafi ekki farið fram mat á stöðu Existu og greiðslugetu, þrátt fyrir að ákærðu hafi hlotið að vera ljóst að eignir félagsins höfðu fallið mikið í verði á mörkuðum.

Saksóknari bendir einnig á í ákæru sinni að veruleg fjártjónshætta hafi falist í veitingu lánsins. Um gríðarlega hátt lán hafi verið að ræða, sérstaklega miðað við stærð sparisjóðsins á tíma þegar lausafjárþurrð var hjá fjármálafyrirtækjum og mikil óvissa á hlutafjármörkuðum.

Ákæran í SPRON-málinu

Frá fyrirtöku SPRON-málsins í héraðsdómi á síðasta ári.
Frá fyrirtöku SPRON-málsins í héraðsdómi á síðasta ári. mbl.is/Golli
Exista.
Exista. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert