Ekkert óeðlilegt við lánið

Erlendur Hjaltason, fyrrum forstjóri Exista.
Erlendur Hjaltason, fyrrum forstjóri Exista. mbl.is/Golli

Erlendur Hjaltason, fyrrum forstjóri Exista og stjórnarformaður SPRON, telur að ekkert óeðlilegt hafi verið við tveggja milljarða króna peningamarkaðslán sem SPRON veitti Exista þann 30. september 2008. Hann vék af stjórnarfundi áður en ákvörðun var tekin um lánveitinguna sama dag.

Erlendur bar vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi vegna ákæru sérstaks saksóknara á hendur fjórum fyrrum stjórnarmönnum í SPRON og forstjóra sparisjóðsins. Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að samþykkja að veita Exista lánið án trygginga og án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu félagsins.

Aðspurður sagðist Erlendur fyrir dómi ekki vita sérstaklega af hvaða tilefni ákveðið var að veita Exista lánið. Hann benti á að starfsmenn fjárstýringar Exista hefðu verið með þessi mál á sinni könnu og tekið fjöldamörg peningamarkaðslán, án sérstakra trygginga og án þess að aðrir stjórnendur bankans hafi fylgst eitthvað sérstaklega með því.

„Öll fjármögnun Exista var þannig að það var fullt veð tekið í efnahagsreikningi félagsins. Öll lántaka var þannig. Peningamarkaðslánin voru því án sérstakra trygginga,“ sagði Erlendur.

Hann bætti við að samkvæmt skýrslum hefði lausafjárstaða SPRON á þessum tíma ekki verið það að slæm að engir peningar hefðu verið fyrir hendi til þess að lána út. Fjárhagslega staða Exista hefði síðan verið mjög sterk. 

„Það lá fyrir sex mánaða uppgjör Exista með eigin fé upp á 2,3 milljarða evra. Samkvæmt uppgjörinu sem var gert síðar þennan dag [30. september 2008], níu mánaða uppgjörinu, hafði það lækkað um 300 milljónir evra en var enn um tveir milljarðar evra þennan dag. Staðan var mjög sterk.“

Var stofnfjáreigandi í SPRON

Aðspurður um hagsmuni sína, þá sagðist Erlendur bæði hafa verið stofnfjáreigandi í SPRON og hluthafi í Exista.

Sama dag og SPRON veitti Exista tveggja milljarða króna lánið, veitti VÍS, dótturfélag Exista, SPRON peningamarkaðslán sömu fjárhæðar. Sérstakur saksóknari hefur bent á að engar tryggingar hafi verið teknar í láni VÍS af hálfu SPRON til að tryggja endurgreiðslu á láninu til Exista. Eftir þennan snúning hafi áhætta VÍS gagnvart Exista því minnkað um tvo milljarða, en í staðinn hefði SPRON veitt Exista tryggingalaust lán að sömu fjárhæð.

Aðspurður sagðist Erlendur ekki muna hvenær hann vissi fyrst um innlánið frá VÍS. Hann hefði að minnsta kosti ekki vitað af því þennan dag, 30. september.

Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu.
Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert