„Brot ákærðu stórfelld“

Saksóknarinn í málinu og aðstoðarmenn hans.
Saksóknarinn í málinu og aðstoðarmenn hans. mbl.is/Styrmir Kári

Birgir Jónasson, saksóknari í SPRON-málinu svonefnda, telur að brot ákærðu, fyrrum stjórnarmanna og forstjóra SPRON, hafi verið stórfelld. Þeim hafi ekki getað dulist að tveggja milljarða króna lán, sem þau samþykktu að veita Exista 30. september 2008, hafi verið ólögmætt og valdið sparisjóðnum verulegri fjártjónshættu.

Hann benti á í málflutningi sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að brotavilji Guðmundar Arnar Haukssonar, fyrrverandi forstjóra SPRON, hefði verið sterkari en stjórnarmannanna. Þungir dómar hefðu jafnframt fallið á allra seinustu árum í málum sem varða umboðssvik í bankastarfsemi.

Venjuleg refsing við umboðssvikabrotum er fangelsi allt að tveimur árum, en saksóknari benti hins vegar á að þyngja mætti refsinguna, ef um miklar sakir væru að ræða, í allt að sex ára fangelsi.

Brutu gegn útlánareglum SPRON

Fjór­ir fyrr­ver­andi stjórn­ar­menn SPRON, þau Ari Berg­mann Ein­ars­son, Jó­hann Ásgeir Bald­urs, Mar­grét Guðmunds­dótt­ir og Rann­veig Rist, sem og fyrr­ver­andi sparis­sjóðstjóri SPRON, Guðmund­ur Örn Hauks­son, eru ákærð í mál­inu fysr­ir umboðssvik.

Þeim er gefið að sök að hafa mis­notað aðstöðu sína hjá spari­sjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyr­ir heim­ild­ir til lán­veit­inga þegar þau samþykktu á stjórnarfundi SPRON hinn 30. sept­em­ber 2008 að veita hluta­fé­lag­inu Ex­istu tveggja millj­arða króna peningamarkaðslán án trygg­inga og án þess að meta greiðslu­getu og eigna­stöðu fé­lags­ins í sam­ræmi við út­lána­regl­ur spari­sjóðsins.

Lánið var fram­lengt fjór­um sinn­um og var síðasti gjald­dagi þess 16. mars 2009.

Saksóknari sagði hafið yfir allan vafa að stjórnarmennirnir hefðu brotið gegn útlánareglum SPRON með því að samþykkja umrædda lánveitingu. Það hefðu þau gert þrátt fyrir að allar ytri aðstæður hefðu gert það að verkum að enn meiri ástæða en ella væri til að fara að fullu eftir öllum varúðarreglum varðandi lánveitingar.

Hann vísaði til reglna sparisjóðsins um lánveitingar og ábyrgðir, en í grein 1.2. segir að lánveitingar skuli á hverjum tíma miða að því að markmiðum SPRON um arðsaman rekstur, sterka eiginfjárstöðu og góða lausafjárstöðu verði náð. Þar segir einnig ða útlánaákvarðanir skuli byggja á faglegum og viðskiptalegum forsendum. Lánveitingar og önnur fyrirgreiðsla til viðskiptavina skuli taka mið af fjárhagsstöðu, greiðslugetu og viðskiptasögu viðkomandi.

Engar tryggingar teknar

Einnig skuli að jafnaði afla skattframtala, ársreikninga, greiðslumata, rekstrar- og greiðsluáætlana og/eða annarra fjárhagslegra upplýsinga frá viðskiptavinum og úr þeim unnið á skipulegan hátt. Saksóknari sagði þetta ekki hafa verið gert.

„Þá er þar tekið fram að stefna skuli að því að vægi stórra útlána minnki, en í staðinn lögð áhersla á meiri dreifingu, það er fleiri og smærri lán sem jafnframt skili meiri áhættudreifingu,“ sagði hann.

Hann benti jafnframt á grein 1.4. þar sem segir að áður en lánveiting sé ákveðin skuli afla nauðsynlegra upplýsinga um fjárhag viðskiptavinarins og meta greiðslugetu hans.

SPRON hefði ekki tekið tryggingar vegna lánsins, en saksóknari vísaði í því sambandi til greinar 1.5., þar sem segir að lán sem ekki séu veitt með aðstoð lánsmatskerfis skuli veitt gegn ásættanlegum tryggingum.

Þá sé sérstaklega fjallað um lán í íslenskri mynt í þriðja kafla reglnanna. Í grein 3.1. komi fram að taka skuli saman tryggingastöðu við SPRON við hverja lánveitingu og athuga hvort þörf sé á því að bæta tryggingar vegna veittra lána og ábyrgða.

Lánið „mjög óvenjulegt“

Saksóknari sagði að lánið hefði verið „mjög óvenjulegt. Það hefði verið eina lánið sem samþykkt var af stjórn sparisjóðsins á árunum 2007 og 2008. Lánið hefði einnig verið afar stórt miðað við fjárhag sparisjóðsins og full ástæða hefði verið fyrir stjórnarmenn að fara varlega við ákvörðun sína. Að fara eftir öllum reglum vegna slíkra lána, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem var komin upp á fjármálamörkuðu á þessum tíma.

Hann sagði að veruleg fjártjónshætta hefði falist í veitingu lánsins. Lausafjárþurrð hefði verið hjá fjármálafyrirtækjum og gríðarleg óvissa á fjármálamörkuðum.

Ákærðu hefðu öll verið í aðstöðu til að skuldbinda sparisjóðinn, sem forstjóri og stjórnarmenn í sparisjóðnum. Lánið hefði verið samþykkt með formlega réttum hætti á stjórnarfundi og ákvörðunin því verið skuldbindandi fyrir sparisjóðinn. Þau hefðu haft aðstöðu til að veita Exista umrætt lán, en farið út fyrir heimildir sínar og þar með misnotað aðstöðu sína.

Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu.
Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert