Krónan ekki sjálfstætt vandamál

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það stenst einfaldlega ekki skoðun að íslenska krónan sé sjálfstætt vandamál. Við höfum haft lága verðbólgu og lækkandi vexti og lærdómurinn sem við eigum að draga núna er sá að ef við höldum áfram á þeirri braut, en ætlum okkur ekki um of í einhverjum leiðréttingum og kjarabótum í gegnum taxtahækkanir eða nafnlaunahækkanir, þá getum við notið enn lægri vaxta og viðvarandi lágrar verðbólgu.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag eftir að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði fólk hafa upplifað gríðarlega kjaraskerðingu frá hruni sem væri afleiðing gengisfellingar krónunnar. „Getur verið að staðreyndin sé einfaldlega sú að þjóðin sé ekki tilbúin að lifa við afleiðingar hinnar íslensku krónu og hinn margrómaða sveigjanleika þeirrar krónu.“ Engin þjóðarsátt væri um gjaldmiðil sem kallaði „kjaraskerðingu, vaxtahækkanir og hörmungar“ yfir þjóðina. Bjarni sagði að það væri vafalaust spennandi fyrir þá sem vildu losna við íslensku krónuna að hvetja til þess að laun yrðu hækkuð upp úr öllu valdi sem skilaði sér í hárri verðbólgu og vöxtum og kenna síðan krónunni um það.

„Staðreyndin í dag er sú að opinber fjármál eru ekki að setja þrýsting á íslensku krónuna, staðan í viðskiptalöndum er heldur ekki að setja þrýsting á íslensku krónuna, staðan í sveitarfélögunum ekki heldur. Það eina sem ógnar íslensku efnahagslífi hvað varðar verðbólgu og hærri vexti er staðan á vinnumarkaði. Og það dugar ekki fyrir menn, ef það á að leiða fram óábyrga kjarasamninga, að koma þegar upp er staðið, eftir hærri verðbólgu og hærri vexti, og segja: Þetta var allt íslensku krónunni að kenna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert