Lýsa sig vanhæfa í máli Ólafs

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Þórður Arnar

Tveir nefndarmenn og einn varamaður í endurupptökunefnd hafa lýst sig vanhæfa til þess að fjalla um beiðni Ólafs Ólafssonar um að Al Thani-málið svonefnda verði tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju.

Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að Björn L. Bergsson, formaður nefndarinnar, Þórdís Ingadóttir og Sigurður Tómas Magnússon, varamaður Þórdísar í nefndinni, hefðu ákveðið að víkja sæti vegna vanhæfis í málinu.

Þórólfur Jónsson, lögmaður Ólafs, segir í samtali við mbl.is að þess sé einnig krafist að Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður, sem tekur sæti í nefndinni stað Björns, víki sæti vegna vanhæfis.

Hann vísar til umfjöllunar Viðskiptablaðsins í aprílmánuði þar sem fjallað var um vinskap Kristbjargar og Bjargar Thorarensen, eiginkonu Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, en hann var einn dómara í Al Thani-málinu.

Það er því með öllu óljóst hvenær endurupptökunefndin tekur mál Ólafs fyrir, enda þarf dómstólaráð fyrst að tilefna nýjan nefndarmann vegna vanhæfis Þórdísar og Sigurðar Tómasar og í kjölfarið þarf nefndin að taka afstöðu til hæfis Kristbjargar.

Í frétt Viðskiptablaðsins segir að Þórdís sé persónulegur vinur Björns Þorvaldssonar, saksóknara í málinu, og þá hafi Sigurður Tómas starfað sem ráðgjafi fyrir sérstakan saksóknara frá árinu 2009.

Sönnunargögn ranglega metin

Endurupptökunefnd skipa þrír nefndarmenn og þrír varamenn. Af aðalmönnunum er einn tilnefndur af Hæstarétti, annar af dómstólaráði og sá þriðji er kosinn af Alþingi. Eins og áður sagði mun Kristbjörg taka sæti Björns og dómstólaráð skipa nýjan nefndarmann, en þriðji aðalmaðurinn er Elín Blöndal, lögfræðingur hjá Háskóla Íslands.

Ólaf­ur óskaði eft­ir því við end­urupp­töku­nefnd í seinasta mánuði að Al Thani-málið svonefnda yrði tekið til meðferðar og dóms­upp­sögu að nýju hvað hann varðar. Helsta ástæðan fyr­ir beiðninni er sú að í dómi Hæsta­rétt­ar hefi sönn­un­ar­gögn í mál­inu verið ranglega met­in. Það hefði haft veigamik­il áhrif á niður­stöðu dóms­ins sem dæmdi Ólaf til fjög­urra og hálfs árs fang­elsis­vist­ar fyr­ir markaðsmis­notk­un.

Að mati Ólafs lagði Hæstirétt­ur rangt mat á sím­tal tveggja manna, þar sem ann­ar vís­ar til sam­tals við ótil­greind­an mann sem kallaður var „Óli“, um til­tekna þætti viðskipt­anna sem málið tók til. Í vitn­is­b­urðum fyr­ir héraðsdómi og öðrum sönn­un­ar­gögn­um máls­ins hafi komið skýrt fram að þarna var átt við Ólaf Ar­in­björn Sig­urðsson lög­mann. Þrátt fyr­ir þessa staðreynd hafi Hæstirétt­ur talið að vísað hafi verið til Ólafs Ólafs­son­ar.

Í yfirlýsingu sem verjandi Ólafs sendi frá sér sagði að um grund­vall­ar­atriði væri að ræða. Af umræddu sím­tali væri sú ranga álykt­un dreg­in að Ólaf­ur Ólafs­son hefði verið upp­lýst­ur um til­tekna þætti viðskipt­anna, þrátt fyr­ir að fyr­ir­liggj­andi gögn sýndu annað. Ekk­ert annað í mál­inu sýn­di fram á meinta vitn­eskju Ólafs um þessi atriði. Þessi ranga for­senda væri hornsteinn­inn að sak­fell­ingu Ólafs í dómi Hæsta­rétt­ar sem tel­ur að á grunni sím­tals­ins sé hafið yfir skyn­sam­leg­an vafa að Ólaf­ur Ólafs­son skyldi njóta arðs til jafns við Al Thani.

Ólafur var sakfelldur í málinu ásat þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni. Hreiðar Már var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður í fjögur ár og þeir Ólafur og Magnús í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Frá aðalmeðferð í Al Thani-málinu.
Frá aðalmeðferð í Al Thani-málinu. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert