Geirvörturnar frelsaðar á Austurvelli

Þessar stúlkur úr MR tóku þátt í Free The Nipple …
Þessar stúlkur úr MR tóku þátt í Free The Nipple átakinu í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega 1100 manns hafa boðað komu sína á Austurvöll laugardaginn 13. júní en þá fer fram viðburður í nafni Free The Nipple byltingarinnar. Er markmiðið að afklámvæða geirvörtuna og eru konur hvattar til þess að vera þær sjálfar á Austurvelli, hvort sem þær kjósa að vera í brjóstahaldara, án hans, eða berar að ofan.

„Þetta snýst aðallega um að búa til rými fyrir stelpur og konur til þess að koma saman og vera þær sjálfar,“ segir Stefanía Pálsdóttir, en hún stendur að viðburðinum ásamt Guðbjörgu Ríkeyju Thoroddsen Hauksdóttur.

Á Austurvelli verða jafnframt tónlistaratriði og ræðuhöld en Stefanía segir að leitast verði eftir því að hafa afslappaða stemmningu. Viðburðurinn fékk styrk frá Mannréttindasjóði og segir Stefanía það breyta miklu. „Ríkið er greinilega með á nótunum um hvað þarf að gerast og það breytir miklu að fá styrk.“

Góð og jákvæð viðbrögð

Að sögn Stefaníu var viðburðurinn gerður á Facebook í byrjun mars en dagsetningin ákveðin fyrir um tveimur vikum síðan. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. „Við höfum fengið alveg rosalega góð og jákvæð viðbrögð. Hönnuðurinn Sunna Ben hannaði fyrir okkur lógó sem hefur verið sett á boli sem verða til sölu. Þeir eru hugsaðir fyrir þær sem vilja sýna málstaðnum lið en vilja kannski ekki vera berar að ofan.“

26. mars á þessu ári var byltingakenndur dagur í ljósi þess að þá tóku mörg hundruð íslenskar konur sig til og „frelsuðu geirvörtuna“. Margar birtu myndir af berum brjóstum sínum á samfélagsmiðlum eins og Twitter en aðrar tóku þetta lengra og fóru út ýmist berbrjósta eða brjóstahaldaralausar. Stúlkur í menntaskólum borgarinnar voru sérstaklega áberandi í byltingunni sem skapaði mikla umræðu og voru flestir sammála um að hún hefði hrært hressilega upp í samfélaginu.

Magnað að fylgjast með síðustu mánuði

Stefanía segir að Free The Nipple byltingin hér á landi hafi breytt gífurlega miklu fyrir ungar konur. „Það er búið að vera magnað að fylgjast með síðustu mánuði og hvað er búið að vera í gangi. Eins og bara #6dagsleikinn og #þöggun,“ segir Stefanía en það eru tvö myllumerki sem hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Merkinu #6dagsleikinn var ætlað að varpa ljósi á kynjamisrétti í hversdagsleikanum og rekur það uppruna sinn til málþings nemenda í kynjafræði en #þöggun hefur verið áberandi undanfarna daga eftir að meðlimir lokuðu Facebook síðunnar Beauty Tips hófu að deila sögum af kynferðisofbeldi undir myllumerkinu.

Stefanía segir að Free The Nipple byltingin hafi augljóslega haft áhrif á hugsunarhátt Íslendinga. „Það er eitthvað að gerast, það er alveg greinilegt. Ég held að þessi dagur í mars hafi líka búið til rosalega góðan grundvöll fyrir samræðu í samfélaginu sem þurfi svo að eiga sér stað um kvenlíkamann. Við höfum líka sent út þau skilaboð að byltingin var ekki eitthvað sem stóð yfir í nokkra daga. Þetta var ekki eitthvað þar sem  allir voru að sýna geirvörturnar í þrjá daga, þetta heldur áfram.“

Aðspurð hvort að hún og Guðbjörg ætli að standa fyrir fleiri viðburðum í þessum dúr í sumar segir Stefanía það mögulegt. „Það er aldrei að vita með fleiri viðburði, við erum með ýmislegt í bíðgerð.“

Viðburðurinn á Facebook.

Stefanía Pálsdóttir
Stefanía Pálsdóttir Úr einkasafni
Guðbjörg Thoroddsen Hauksdóttir
Guðbjörg Thoroddsen Hauksdóttir Ljósmynd úr einkasafni.
Gleðin var við völd á Free The Nipple deginum.
Gleðin var við völd á Free The Nipple deginum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert