Óeðlilegt eigi ráðherra fjölmiðil

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Okkur þingmönnum ber náttúrulega að skrá alla okkar hagsmuni, ef við getum orðað það svo, á ákveðna síðu á alþingisvefnum þar sem okkur ber að gera grein fyrir því ef við eigum í fyrirtækjum eða kaupum í fyrirtækjum eða seljum hlut okkar,“ sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokks, í útvarpsþættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun.

Var þar meðal annars rætt við hana og Róbert Marshall, formann þingflokks Bjartrar framtíðar, og snerist umræðan einkum að fjárkúgunum tveggja systra sem meðal annars var beint gegn forsætisráðherra. Var ráðherranum hótað, ef ekki yrði gengið að kröfunum eða lögreglu gert viðvart, vægðarlausri fjölmiðlaumfjöllun.

Í tilkynningu sem forsætisráðherra sendi frá sér vegna málsins kemur meðal annars fram að hann hafi engin fjárhagsleg tengsl við stjórnarformann DV og Pressunnar, né hafi ráðherrann komið að kaupum Vefpressunnar á DV.

Líkt og áður segir benti Ragnheiður á að þingmenn og ráðherrar yrðu að gera grein fyrir öllum hagsmunatengslum sínum. 

„Ég held að engir slíkir hagsmunir séu skráðir hjá umræddum ráðherra. En hins vegar er það [svo], alveg sama hvaða ráðherra á í hlut, að það mun náttúrulega ekki ganga að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eigi í fjölmiðlum,“ sagði Ragnheiður. 

Yfirlýsing ekki ásættanleg

Róbert tók því næst til máls og sagði yfirlýsingu forsætisráðherra eina og sér ekki vera fullnægjandi.

„En svo snýst þetta kannski ekkert endilega um eignarhald. Þetta getur snúist um afskipti af viðskiptum, eða eitthvað slíkt. Að menn séu að greiða fyrir lánveitingum eða eitthvað svoleiðis. Mér finnst bara mörgum spurningum ósvarað. Það eru tengsl á milli forsætisráðherra og MP Banka, sem kemur þarna við sögu. Það eru, eins og ég segi, vísbendingar um einhver tengsl. Og þá verða menn að gera hreint fyrir sínum dyrum og það er ekki ásættanlegt að það sé gert í yfirlýsingu,“ sagði Róbert og bætti við að leiðin til þess að koma sér hjá „óþægilegum spurningum“ væri með yfirlýsingum til fjölmiðla. 

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert