„Þessi heimild er til staðar“

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. Jón Baldvin Halldórsson

Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, kveðst hafa heyrt af hugmyndinni um skipun sáttanefndar í kjaradeilu ríkisins við BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. „Ég var búin að heyra af þessari hugmynd því hún var rædd opinberlega. Síðan var haft formlegt samráð við mig í morgun eins og lögin gera ráð fyrir,“ sagði Bryndís í samtali við mbl.is.

Hún sagðist ekki hafa neina sérstaka skoðun á því að fara þessa leið. „Ég hef enga sérstaka skoðun á því en þessi heimild er til staðar í lögum og ef ríkisstjórnin metur þessa leið líklega til árangurs í deilunni þá er í sjálfu sér ekkert við það að athuga.“

Bætti hún við að á meðan nefndin væri ekki skipuð hefði hún málið inni á sínu borði. „Þannig að ef eitthvað gefur tilefni til þá mun ég boða fund.“

Samkvæmt lögum er það ríkisstjórnin sem skipar í nefndina. Sáttanefnd mun hafa sömu heimildir og ríkissáttasemjari. „Hún getur lagt fram tillögur sem hún þá leggur síðan fyrir samninganefndirnar.“

Embættið mun vinna með nefndinni eins og hún óskar eftir. „Já, ef nefndin verður skipuð, ef deiluaðilar fallast á þá leið. Ef nefndin verður skipuð mun embættið vinna með henni.“

Enn ber langt í milli í deilunum og Bryndís hefur ekki séð ástæðu til að boða til fundar.

mbl.is

Bloggað um fréttina