Viðskiptavinir oftast gerendur

Steinunn Rögnvaldsdóttir félags- og kynjafræðingur.
Steinunn Rögnvaldsdóttir félags- og kynjafræðingur. Kristinn Ingvarsson

„Spurt var hvort viðkomandi hafi unnið í þjónustustörfum síðastliðin tíu ár og af þeim sem svöruðu og höfðu gert það voru 41% sem hafði verið kynferðislega áreitt,“ sagði Steinunn Rögnvaldsdóttir, félags- og kynjafræðingur, í samtali við mbl.is, um niðurstöður rannsóknar sem hún vann sem kynntar voru á ráðstefnu sem Starfs­greina­sam­bandið stóð fyr­ir ásamt MATVÍS og syst­ur­sam­tök­um á Norður­lönd­um gegn staðal­mynd­um og kyn­ferðis­legri áreitni inn­an hót­el-, veit­inga-, og ferðaþjón­ust­unn­ar í dag.

Starfsgreinasambandið í samstarfi við Rannsóknarstofnun í jafnréttismálum við Háskóla Íslands lét vinna rannsókn á tíðni og eðli kynferðislegs áreitis gagnvart starfsfólki í þjónustustörfum. Rannsókn var unnin af Félagsvísindastofnun og Steinunni þar sem hún athugaði hversu stór hluti þeirra sem starfa í þjónustugeiranum hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni.

Áreitið mest á veitingastöðum

Steinunn segir slíkt líklega mun algengara en flestir gera sér grein fyrir. „Það hafa mjög fáar rannsóknir verið gerðar á Íslandi hingað til um þetta málefni, þó það hafi verið í vinnuverndarlöggjöf lengi þannig að umfangið og eðli hefur ekki verið rannsakað mikið hingað til. Við erum meira að rannsaka þolendurna en vitum kannski ekki hvað gerendurnir eru að hugsa. Þeir, samkvæmt þessari rannsókn, eru oftast viðskiptavinir.“

Steinunn sagði áreitið oftast eiga sér stað á veitingastöðum. „Þar hækkar hlutfallið, um 60% sem svöruðu þar hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti. Það helst kannski í hendur við það að algengasta starfsheitið sem fólk nefnir þegar það segist hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti er þjónn. Það er í samræmi við erlendar rannsóknir sem hafa verið gerðar.“

Vitundarvakning

Hún segir umræðu síðustu daga afar merkilega og nú fari ótrúlegir tímar í hönd. „Það hefur mikið verið talað um þöggun og kynferðislegt ofbeldi. Það er svolítið magnað að þetta hittist á sama tíma. Byltingin með þöggunina er ein af mörgum sem hefur komið síðustu ár, síðasta var „free the nipple.“ Þetta er búin að vera hver aldan á fætur annarri sem skellur á varðandi vakningu um kynferðislegt ofbeldi. Kannski getum við núna farið að tala meira um að taka betur á þessum málaflokki.“ Hún bætir við að vonandi sé þetta hluti af stærri vitundarvakningu, það þurfi einnig að rannsaka aðrar starfsstéttir.

„Þær takmörkuðu rannsóknir sem eru til benda til þess að áreiti verði í störfum þar sem konur eru í minnihluta eða konur eru í „karlastörfum.„ Þar verður ákveðið andóf, erfiðara að koma inn, sem birtist í kynferðislegu áreiti.“

Steinunn segir að áreiti á vinnustað hafi sérstaklega slæm áhrif á konur. „25% kvenna sem hefur orðið fyrir áreiti af hendi yfirmanns. Áreitið hefur áhrif á öryggistilfinningu og öruggi inni á vinnustað. Viðskiptavinur sem áreitir þig fer en þú ert alltaf með þeim sem vinnur með þér á vinnustaðnum. Auðvitað er það mjög óþægilegt ef yfirmaður er gerandinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert