Buchheit fylgdi ný nálgun

Lee Buchheit og Glenn Kim, ráðgjafar íslenskra stjórnvalda, á fundi …
Lee Buchheit og Glenn Kim, ráðgjafar íslenskra stjórnvalda, á fundi með kröfuhöfum sem fór fram á Íslandi í fyrravetur. mbl.is/Kristinn

Bandaríski lögmaðurinn Lee Buchheit, hjá lögmannsstofunni Cleary Gottlieb Steen & Hamilton í New York, segir aðspurður að það kæmi sér ekki á óvart ef áætlun íslenskra stjórnvalda um afnám hafta yrði notuð í kennslubókum í framtíðinni. Verkefnið hafi enda verið tröllaukið í samhengi við íslenskt hagkerfi.

„Það leiddi af gríðarlegu umfangi fjármálahrunsins á Íslandi að höftin þurftu að vara lengur en nokkur hafði reiknað með. Við slíkar aðstæður eru ekki mörg fordæmi fyrir því að höftum sé lyft Það kæmi mér því ekki á óvart ef nemendur í alþjóðafjármálum muni lengi nota þetta sem kennslubókardæmi.

Þegar fjármagnshöft hafa verið við lýði í svo langan tíma, og þegar á bak við höftin hefur safnast upp fjárhæð sem nemur 70% af vergri landsframleiðslu landsins, hlýtur losun hafta að vera erfitt og vandasamt verk,“ segir Buchheit og bendir á að framkvæmdahópur um afnám hafta og Seðlabanki Íslands hafi borið hitann og þungann af greiningarvinnu sem var notuð við samningsgerðina.

Tvær leiðir voru færar

Eins og rakið er í grein hér fyrir neðan var Buchheit einn hinna erlendu ráðgjafa sem stjórnvöld leituðu til vegna viðræðna við kröfuhafa slitabúanna. Hann er þjóðþekktur eftir gerð Icesave-samninganna.

„Sem teymi fórum við yfir nokkrar mögulegar leiðir til að nálgast vandann. Verkfærin í verkfærakistunni voru hins vegar ekki mörg. Almennt talað eru tvær leiðir færar til að taka á miklu magni innlends gjaldeyris sem kann að leita úr landi þegar slakað er á höftum. Það má annaðhvort reyna að minnka umfang þessara eigna eða fresta útflæði fjármagnsins með lengingu, eða fara leið sem er einhvers konar blanda þessara tveggja.

Aðferðir til að minnka krónueignir felast í tæknilegum útfærslum eins og uppboða á gjaldeyri, sem er þá seldur á yfirverði miðað við hefðbundið gengi, skattheimtu, valfrjálsu stöðugleikaframlagi með eftirgjöf eigna og svo framvegis. Aðferðir til að fresta útflæði fjármagns fela í sér tæknilegar útfærslur eins og að lengja endurgreiðsluferil núverandi fjárfestinga, „hraðahindranir“ eða magntakmarkanir, og svo framvegis.“

Buchheit segir það hafa verið nær samhljóða álit þeirra sem til þekkja að setning haftanna hafi verið nauðsynleg aðgerð eftir fjármálahrunið en að þau haldi nú aftur af efnahagsbatanum á Íslandi.

Vildu forðast gengissveiflur

„Hvatinn fyrir aðgerðunum sem kynntar voru í gær [í fyrradag] er þörfin fyrir að leysa greiðslujafnaðarvanda Íslands, forðast gengissveiflur og tryggja áframhaldandi efnahagsbata. Hvatinn að baki aðgerðunum var ekki sá að afla tekna. Ein afleiðing aðgerðanna verður hins vegar sú að leiða af sér umtalsvert fjárstreymi bæði króna og erlends gjaldeyris í ríkissjóð Íslands. Þetta fé má nota til að draga úr skuldum ríkissjóðs sem aftur ætti að leiða til þess að skuldatryggingaálag landsins batni og lántökukostnaður lækki,“ segir Buchheit sem hóf störf fyrir framkvæmdahóp um afnám hafta um mitt síðasta ár.

Kom með nýja nálgun

Heimildamaður blaðsins sagði Buchheit hafa áratugareynslu af lausn flókinna mála. Komu Buchheits hafi fylgt nýjar áherslur. Hann nálgist málin með aðferðafræði kylfu og gulrótar, þ.e. aðferðafræði hörku eða umbunar. Í tilviki haftaáætlunarinnar er stöðugleikaskatturinn kylfan en gulrótin felst m.a. í því að stjórnvöld greiða götu nauðasamninga með lagabreytingum. Buchheit lagði ríka áherslu á greiðslujafnaðarvandann og úrlausn hans. Mikil reynsla hans er talin eiga ríkan þátt í því að kröfuhafar kusu að lúta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og hafa þegar sent inn erindi þess efnis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »