Málið fallið í grýttan farveg

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

„Það hefur fallið í frekar grýttan jarðveg og það var aldrei ætlunin hjá mér að fara að þrýsta því í einhvers staðar í gegn. Ef það er ekki samstaða um að breyta þessari aðferðafræði til þess að fá fram þá sem hugsanlega hafa skotið undan fjármunum þá hef ég engan ásetning um að þrýsta því í gegnum þingið.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is. Eins og fréttavefurinn greindi frá í gær eru gögn sem tengja Íslendinga við skattaskjól og ríkinu voru boðin til sölu komin í hendur embættis skattrannsóknarstjóra. Ríkinu voru boðin gögnin til sölu og var samið um kaup á þeim fyrir 30 milljónir króna. Starfshópur skilaði Bjarna drögum að frumvarpi fyrr á þessu ári þar sem lagt var til að tímabundið yrði fallið frá refsimeðferð hjá þeim sem kæmu fram með tekjur eða eignir í skattaskjólum erlendis.

„Það þarf að vera samstaða um það að beita þessari aðferðafræði. Þetta er ekki eitthvað sem ætti að ráðast eftir einhverjum pólitískum línum heldur var alltaf hugmyndin að skoða þessa leið sem reynst hefur öðrum vel. Ég skynja ekki almennan stuðning við leiðina og þá ætla ég ekki að þrýsta því í gegn,“ segir Bjarni og bætir við að honum hafi þótt málið fá mjög dræmar undirtektir á hjá flokkum á Alþingi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert