Stingst óvænt upp úr sandi

Suðurströndin hefur orðið mörgum skipum að aldurtila. Landeyjasandur er síbreytilegur. …
Suðurströndin hefur orðið mörgum skipum að aldurtila. Landeyjasandur er síbreytilegur. Flakið af Surprise hefur grafist í sandinn og horfið sjónum manna jafnvel árum saman. Nú er aftur farið að örla á flakinu í fjöruborðinu en á stundum hefur flakið verið langt uppi á kambi. mbl.is/RAX

Flakið af togaranum Surprise GK 4 frá Hafnarfirði gægist nú upp úr Landeyjasandi neðan við bæinn Sigluvík í Vestur-Landeyjum. Nýsköpunartogarinn Surprise (sem merkir óvænt eða furða) var rúmlega 20 ára og nýkominn úr skveringu, grænmálaður og glæsilegur, þegar hann strandaði um klukkan 05.30 að morgni 5. september 1968. Um borð var 23 manna áhöfn. Henni var bjargað á hálftíma og vöknuðu skipverjar ekki í fæturna þegar þeir voru dregnir í land í björgunarstól.

Gerð var tilraun til að bjarga togaranum en veðrið kom í veg fyrir það og Surprise komst aldrei aftur á flot. Fjaran þar sem togarinn strandaði er síbreytileg og stundum hefur skipsflakið horfið í sandinn jafnvel árum saman. Svo fer fjaran á flakk og sviptir hulunni af Surprise, alveg óvænt, líkt og nú er að gerast.

Fyrstir á strandstað

Jón Ágústsson, bóndi í Akurey í Vestur-Landeyjum, var 26 ára og bjó í föðurhúsum í Sigluvík þegar Surprise strandaði. Jón man vel eftir strandinu.

„Við faðir minn, Ágúst Jónsson, vorum fyrstir í fjöruna á bíl,“ sagði Jón. „Þetta var snemma um morgun. Það hringdi einhver upp á að komast fram úr og vildi fá okkur með. Við fórum bara á undan.“

Áhöfnin var enn um borð þegar feðgarnir úr Sigluvík komu í fjöruna. Togaramennirnir skutu línu í land og björgunarsveitin setti upp björgunarstól. Gott veður var á meðan áhöfninni var bjargað í land. Rúta kom eftir skipverjum og flestir þeirra fóru beint suður. Nokkrir yfirmenn urðu eftir vegna þess að reyna átti að bjarga togaranum og komu m.a. heim í Sigluvík.

Menn gerðu sér góðar vonir um að það tækist að draga Surprise á flot.

Jón sagði að skipsflakið hefði alveg horfið í sandinn heilu árin. „Hann týnist eiginlega alveg. Svo kemur hann upp aftur. Það er svo mikil breyting á sandinum. Þetta er akkúrat sama og í Landeyjahöfn. Sandurinn er alltaf á fleygiferð. Höfnin fyllist á veturna, sandurinn er alltaf á ferðalagi. Þetta er ósköp svipað lögmál þarna,“ sagði Jón.

Fór út af strikinu og strandaði

Kristján Andrésson var skipstjóri á Surprise GK þegar togarinn strandaði og var þá búinn að vera með hann í tíu ár. Þeir voru að fiska fyrir siglingu til Þýskalands og voru aðallega á höttunum eftir ufsa. Túrinn byrjaði suður af Reykjanesi og voru þeir komnir með um 70 tonn á fjórum sólarhringum. Þá kom slæm veðurspá og Kristján sagði að hann hefði ákveðið að færa sig á ný mið. Stefnan hafði verið sett norður fyrir Þrídranga og áfram austur með landinu þegar hann fór í koju. Hann vaknaði við vondan draum þegar skipið tók niðri. Í ljós kom að vikið hafði verið frá stefnunni og því fór sem fór. Kristján fór síðastur frá borði.

„Það var gömul lending á þeim slóðum sem hann fór upp. Það var haft þarna fyrir utan og hann fór yfir haftið á flóðinu og alveg upp í fjöruna. Svo þegar flæddi að aftur um kvöldið var hann nánast laus,“ sagði Kristján. Þá var varðskipið Ægir komið á strandstaðinn. Kristján sagði að ekki hefði tekist að koma dráttartaug í land frá varðskipinu vegna brims. Reynt var að halda við skipið með jarðýtum svo það sneri beint upp í landið. Ekki varð neitt ráðið við veðrið og brimið og tókst ekki að draga togarann á flot.

Kristján hélt áfram sem skipstjóri um tíma en fór svo í land og var hafnarstjóri í Þorlákshöfn í tíu ár. Á því tímabili fór hann tvisvar austur að strandstað Surprise.

Togarinn strandaði 5. september 1968. Áhöfninni, 23 sjómönnum, var bjargað …
Togarinn strandaði 5. september 1968. Áhöfninni, 23 sjómönnum, var bjargað í land. mynd/Georg Ormsson

„Í fyrra skiptið var það mikið af hvalbaknum (fremst á skipinu) upp úr að ég sagði við Ágúst í Sigluvík að ef hann gæti náð festingapollunum skyldi ég kaupa þá til að setja upp í Þorlákshöfn. Mig vantaði alltaf polla. Það varð þó ekkert úr því,“ sagði Kristján. Í seinna skiptið sem hann kom á fjöruna var allt horfið í sandinn nema að stefnið af togaranum stóð upp úr. Skrokkurinn hafði brotnað í tvennt og grafist í sandinn.

Kristján sagði að sandurinn þarna væri síbreytilegur og á mikilli hreyfingu. Á tímabili var komin talsverð sandfjara framan við flakið og það var þá uppi á kambinum. Nú er skrokkurinn í flæðarmálinu.

Af kynnum sínum af Landeyjasandi kvaðst Kristján telja að Landeyjahöfn yrði seint til friðs vegna þessa stöðuga og mikla sandburðar.

Síðasta morse-neyðarkallið

Ólafur Vignir Sigurðsson var 21 árs gamall loftskeytamaður á Surprise. Hann var sofandi þegar togarinn strandaði og vaknaði við höggið þegar skipið tók niðri. Ólafur dreif sig strax fram úr og kveikti á sendunum.

„Skipstjórinn sagði mér að senda neyðarkall. Ég gerði það og það var síðasta neyðarkall sem sent var frá íslensku skipi á morsi. Við sendum líka neyðarkall með talstöð. Togarar svöruðu á morsinu og meira að segja skip sem var í Norðursjó. Morsið heyrðist um allar jarðir á næturnar.“

Loftskeytastöðin í Vestmannaeyjum svaraði talstöðvarkallinu og voru björgunarsveitir kallaðar út auk þess sem hafnsögu- og dráttarbáturinn Lóðsinn fór af stað frá Eyjum. Skipverjar héldu fyrst að þeir væru strandaðir á svipuðum slóðum og Landeyjahöfn er núna. Lóðsinn miðaði togarann út og björgunarsveitum var beint á réttan stað.

Stuttbylgjuloftnetið slitnaði og sagðist Ólafur hafa brugðið á það ráð að nota stóra ljósaperu inni í loftskeytaklefanum sem loftnet. Það virkaði ágætlega. Hann sagði að við hristinginn hefði kviknað í blýklæddum köplum og var slökkt í þeim með blautum sjóvettlingum og öryggin tekin úr.

Fann hann fjósalykt?

Guðjón Ingvarsson var 17 ára kyndari á Surprise og yngsti skipverjinn þegar togarinn strandaði. Blaðamanni var sögð saga af því að Guðjón hefði verið á vakt niðri í vélarrúmi um nóttina. Undir morgun hefði hann þurft að bregða sér upp á dekk til að kasta af sér vatni. Það var talsverð undiralda og lélegt skyggni í ljósaskiptunum. Þegar Guðjón kom aftur niður í vél spurði hann vélstjórann hvort það gæti verið að hann hefði fundið fjósalykt uppi á dekki?

Vélstjórinn sagði honum að láta ekki nokkurn mann heyra aðra eins vitleysu því það yrði gert grín að honum ævilangt ef hann orðaði þetta við nokkurn mann!

„Mig rámar nú eitthvað í þetta,“ sagði Guðjón og hló þegar sagan var borin undir hann. „Þetta var einhvern veginn þannig að ég fór þarna upp og mér fannst ég sjá ljós í landi og finna einhverja lykt. En ég var beðinn að steinþegja yfir því á sínum tíma og láta ekki nokkurn mann vita!“ Guðjón man vel þegar skipið tók niðri. „Hann sigldi yfir rif að mig minnir áður en hann stoppaði. Ég fann vel höggið þarna niðri í vélarrúmi. Svo lagðist hann aðeins í aðra hliðina,“ sagði Guðjón. Þá tók við biðin eftir að koma björgunarstólnum í land.

Keypti skipsflakið

Georg Ormsson, vélvirkjameistari í Keflavík, keypti flakið af Surprise og vann að því ásamt aðstoðarmönnum að bjarga verðmætum úr skipinu. Georg náði fljótlega til baka því sem hann lagði í kaupin með því að selja kopar og ýmsar vélar og tæki. Hann sagði að það hefði verið töluverð vinna að hirða það sem nýtilegt var.

„Ég hef verið að þessu í þrjú til fjögur ár þegar veður gaf,“ sagði Georg. „Ég tók myndir til að sýna hvernig er með sandinn þarna fyrir austan. Togarinn lá oftast nær á síðunni. Svo fór það eftir sandinum hvort hann var að grafast eða ekki. Sandurinn er svo ólmur þarna. Það er alveg met. Stundum var togarinn alveg hreint uppi og stundum alveg á kafi.“ Georg sagði að þegar þeir tóku skrúfuna af togaranum hefði svo ört grafist að skipinu að hann hefði þurft að saga öxulinn, enda var hann búinn að selja skrúfuna.

Gísli Matthías Gíslason, þyrluflugmaður hjá Norðurflugi, fór að sjá örla …
Gísli Matthías Gíslason, þyrluflugmaður hjá Norðurflugi, fór að sjá örla fyrir flakinu af togaranum Surprise fyrir um mánuði mbl.is/RAX

Sá flakið fyrir rúmum mánuði

„Ég tók fyrst eftir flakinu fyrir rúmum mánuði,“ sagði Gísli Matthías Gíslason, þyrluflugmaður hjá Norðurflugi. Hann er ættaður úr Vestmannaeyjum og á oft leið með Suðurströndinni. Þá er Gísli af sjómönnum kominn og er áhugasamur um sjóferðasöguna. Ragnar Axelsson ljósmyndari var einmitt í flugferð með Gísla þegar stóra myndin hér á opnunni var tekin.

Gísli sagði að fyrst hefði hann séð þegar gufuketillinn fór að stinga kollinum upp úr sandinum. „Ég hélt að þarna væri bara ketillinn. Svo er ég búinn að fara nokkrar ferðir síðan og það hefur alltaf komið meira og meira í ljós af skipinu.“ Nú má greinilega sjá móta fyrir útlínum skipsins. Gísli sagði að flakið væri alveg í fjöruborðinu og útlínur skrokksins sjást ekki nema á fjöru. Skrokkurinn virðist vera nokkuð heillegur en yfirbyggingin er löngu horfin. Hún var yfir þar sem ketillinn var í vélarrúminu.

Gísli merkti inn á kort staðsetningu flaksins nokkurn veginn. Hann setti einnig mynd af skipsflakinu og færslu í umræðuhóp á Facebook, Gömul íslensk skip, hinn 3. júní sl.

Mikil umræða spratt upp um hvaða skipi flakið tilheyrði og komu ýmsar tilgátur þar um. Í gær höfðu verið skráðar 107 færslur um flakið sem sýnir að talsverður áhugi er á gömlum skipsflökum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Loka