Bandarískt fordæmi á ekki við

Golfbílar eru ekki leyfðir á mótum áhuga- og atvinnumanna.
Golfbílar eru ekki leyfðir á mótum áhuga- og atvinnumanna. Brynjar Gauti

Reglur sem banna notkun golfbíla í mótum eru ekki séríslenskar og fordæmi frá Bandaríkjunum um annað á ekki við hér, að sögn Hauks Arnar Birgissonar, forseta Golfsambands Íslands. Krabbameinsveikum kylfingi var synjað um að fá að nota golfbíl á Eimskipsmótaröðinni um helgina.

Kári Örn Hinriksson óskaði eftir því að fá að nota golfbíl á móti á Hlíðavelli í Mosfellsbæ um helgina á þeim forsendum að hann eigi erfitt með gang eftir fjölda lyfjameðferða sem hann hefur gengist undir vegna krabbameins. Mótanefnd Eimskipsmótaraðarinnar komst að þeirri einróma niðurstöðu að hafna erindinu. Kára Erni var hins vegar boðið að taka þátt í mótinu á golfbíl en á móti ætti hann ekki möguleika á að vinna til verðlauna. Hafnaði hann því boði.

Fordæmi eru fyrir því frá PGA-atvinnumannamótaröðinni í Bandaríkjunum að kylfingur fái að keppa á golfbíl. Atvinnukylfingurinn Casey Martin, sem þjáist af erfðagalla sem þýðir að hann á erfitt með að ganga heilan golfhring, tók meðal annars þátt í tveimur US Open-mótum árið 2001 og 2012 á golfbíl eftir að hann hafði unnið mál gegn túrnum fyrir hæstarétti Bandaríkjanna. 

Haukur Örn segir að fyrir utan þá staðreynd að bandarískir hæstaréttardómar hafi ekkert fordæmisgildi á Íslandi og þessi tiltekni dómur hafi ekki breytt reglum í Evrópu þá hafi forsendur hans varðað atvinnumöguleika kylfingsins. Í dómnum hafi verið litið til laga um réttindi fatlaðra og komist að þeirri niðurstöðu að með því að meina atvinnukylfingnum Martin um að nota golfbíl í atvinnumannamótum væri verið skerða möguleika hans til að afla sér tekna og lífsviðurværis.

„Það á auðvitað ekki við í þessu máli hér. Við erum ekki að keppa í atvinnumennsku á Íslandi. Það er ekki verið að skerða nein atvinnufrelsisákvæði í stjórnarskrá með þessu,“ segir Haukur Örn.

Reglur þurfi að vera gegnsæjar og almennar

Reglan um að golfbílar séu ekki leyfðir á hæsta stigi keppnisgolfs er nær undantekningalaus og er ekki séríslensk, að sögn Hauks Arnar. Hið sama gildir þó að einstakir keppendur framvísi læknisvottorði um að þeir eigi við sjúkdóm eða veikindi að stríða sem hái þeim við golfleik.

„Hér er um að ræða keppnisíþrótt og þar skiptir auðvitað máli að allir sitji við sama borð. Þeir geti þar af leiðandi ekki verið með aðstoð tækja eða búnaðar sem hjálpi þeim umfram aðra. Við keppni í golfi, sem felur kannski í sér að kylfingar leiki fjóra 18-holna hringi á þremur eða fjórum dögum sem þýðir að þeir eru að labba upp í 25 kílómetra á dag, þá veitir það ákveðið forskot að fá að vera á golfbíl,“ segir Haukur Örn.

Hann segist sýna því fulla samúð og mikla virðingu að Kári Örn vilji vera með á mótinu. Þess vegna hafi honum verið boðið að vera með á golfbíl með þeim fyrirvara að hann gæti ekki unnið til verðlauna til að koma til móts við hann.

„Reglan er bara svona og hún þarf að vera gegnsæ og almenn óháð því hver á í hlut. Með því að heimila að þú fengir undanþágu frá reglunni gegn framvísun læknisvottorðs þá værum við að setja starfsmenn hvers golfmóts í þá stöðu að meta alvarleika veikinda eða sjúkdóms þess sem á í hlut hverju sinni. Það getum við ekki gert. Þá erum við ekki með almennar eða gegnsæjar reglur,“ segir Haukur Örn.

Spennan var mikil þegar að ég sá á þriðjudaginn að ég gat skráð mig í þriðja mótið á Eimskipsmótaröðinni sem fer fram í...

Posted by Kári Örn Hinriksson on Thursday, 11 June 2015
Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands.
Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert