Búist við fjölmenni á Austurvelli á morgun

Það verður skemmtileg og fjölbreytt dagskrá á Austurvelli á morgun.
Það verður skemmtileg og fjölbreytt dagskrá á Austurvelli á morgun.

Reykjavíkurdætur, Úlfur Úlfur, Avóka og East of My Youth eru meðal þeirra sem munu troða upp á Austurvelli á morgun en þar fer fram viðburðurinn „Frelsum Geirvörtuna - Berbrystingar Sameinumst!“

Tilgangur viðburðarins, sem hefst klukkan 13, er að skapa umræðu um afklámvæðingu geirvörtunnar og eru kon­ur hvatt­ar til þess að vera þær sjálf­ar á Aust­ur­velli, hvort sem þær kjósa að vera í brjósta­hald­ara, án hans, eða ber­ar að ofan. Rúmlega 1360 manns hafa boðað komu sína á Austurvöll á morgun. 

Fyrir utan tónlistaratriði verða jafnframt ræðuhöld á Austurvelli, þar á meðal mun Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir halda ræðu en hún tók fyrsta skrefið í byltingunni hér á landi þegar hún beraði brjóst sín á Twitter í mars. Daginn eftir tóku fjölmargar íslenskar konur þátt í byltingunni, m.a. með því að bera brjóst sín eða sleppa því að vera í brjóstahaldara.

Þegar að dagskránni á Austurvelli lýkur er haldið í Laugardalslaugina en þangað ætla berbrjósta konur að fjölmenna. Eftir að lauginni lokar klukkan 22 tekur við veisla á Húrra þar sem Úlfur Úlfur, Krakk og Spaghettí, Hemúllinn og DJ Sunna Ben skemmta gestum.

Hér má sjá viðburðinn á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert