Fór á æfingu í brúðkaupsferðinni

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Real Madríd.
Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Real Madríd. PIERRE-PHILIPPE MARCOU

Þegar Rafael Benítez, nýráðinn knattspyrnustjóri Real Madríd, var á brúðkaupsferðalagi í Evrópu á sínum tíma fékk hann góðfúslegt leyfi hjá brúði sinni til að líta inn á æfingu hjá Ajax í Amsterdam. Þetta kemur fram í viðtali við Benítez í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

„Frúin var ekkert sérstaklega glöð með þá ráðstöfun en þar sem við höfðum farið á safn fyrr um daginn lét hún til leiðast. Meðan á þessari ferð stóð leyfði hún mér að fara á fleiri æfingar hjá knattspyrnuliðum enda var ferðin með miklu menningarívafi líka. Hún er mjög almennileg hvað þetta varðar, sem kom sér vel þarna, ég lærði heilan helling,“ segir hann í viðtalinu.

Benítez er frægur fyrir að nýta hverja stund sem hann hefur aflögu til að horfa á og greina leiki. „Þegar dóttir mín, Claudia, var lítil notaði ég tímann meðan ég var að gefa henni pelann klukkan eitt eða fjögur á nóttunni til að horfa á leiki á myndbandi,“ upplýsir hann.

Benítez er mjög metnaðarfullur og vill alltaf gera betur í dag en í gær.  Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, lét einu sinni hafa eftir sér – eftir nokkur tímabil – að hann væri ennþá að bíða eftir hóli frá Benítez eftir leik. Þjálfarinn heldur því raunar fram að hann hafi hælt leikmanninum en takmark hans sé einfaldlega að ná því besta út úr mönnum.

„Stevie er svo ótrúlega góður að ég var alltaf að reyna að ýta honum aðeins lengra. Þegar við unnum Meistaradeildina 2005 sagði hann við mig: „Núna þarftu að gera mig að besta miðjumanni í heimi!“ Þannig unnum við, vorum alltaf að reyna að bæta okkur. Maður þarf alltaf að biðja um meira, knattspyrnustjóri getur aldrei verið saddur, hann verður alltaf að vilja gera liðið sitt ennþá betra.“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »