Verkfallslögin samþykkt

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um lög á verkfallsaðgerðir BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var samþykkt á Alþingi í kvöld að lokinni þriðju umræðu. Lögin taka þegar gildi samkvæmt frumvarpinu og verkfallsaðgerðum félaganna, sem staðið hafa yfir undanfarnar vikur, er þar með lokið.

Frumvarpið var samþykkt með 30 atkvæðum gegn 19. Fjórtán þingmenn voru fjarverandi. Breytingatillögu stjórnarandstöðunnar var hafnað með sama atkvæðamun og sömuleiðis till-gu stjórnarandstöðunnar um að málinu yrði vísað frá. Frumvarpið var lagt fram í gær og fyrstu umræðu lokið í gærkvöldi. Málið var tekið fyrir í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í morgun og önnur og þriðja umræða fóru í kjölfarið fram í dag.

Stjórnarandstæðingar hafa harðlega gagnrýnt frumvarpið og kallað eftir því að það yrði dregið til baka. Hafa þeir sakað ríkisstjórnina um að svipta BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga verkfallsrétti sínum. Stjórnarliðar sögðu að það væri alltaf erfið ákvörðun að setja lög á verkfall en að ríkir almannahagsmunir krefðust þess í þessu tilfelli. Ekki síst sjúklinga.

Verkfall BHM náði til meðal annars til Dýralæknafélags Íslands, Félags geislafræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands og Stéttarfélags lögfræðinga (SL) hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert