„Enginn vilji til samninga“

Jón Gunnarsson er formaður atvinnuveganefndar.
Jón Gunnarsson er formaður atvinnuveganefndar. Styrmir Kári

„Breytingartillögurnar voru kynntar minnihlutanum í dag og ég held að þeim atriðum sem komu fram hjá minnihlutanum hafi verið mætt,“ segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, um stöðu mála á þingi vegna breyt­ing­ar­til­lögu við frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar um stjórn veiða á Norðaust­ur-Atlants­hafs­mak­ríl.

„Hér er verið að leggja til að þau skilyrði sem Umboðsmaður Alþingis mælti fyrir um í sínu áliti verði uppfyllt og að sama skapi að nálgast þau sjónarmið sem hafa verið eitt helsta ágreiningsefnið í fiskveiðistjórnunarmálunum, sem er framsalið á aflaheimildum. Í þessu tilfelli er lagt til að blátt bann verði lagt við varanlegu framsali aflaheimilda,“ segir Jón.

Stjórnarandstöðuliðar voru ósáttir við breytingartillöguna í dag, en t.a.m. sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að hér væri um „gjörsamlega nýja tillögu að ræða“.

Frétt mbl.is: „Gjörsamlega ný tillaga“

Flokkssystir Katrínar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, var einnig ósátt við ástand mála. „Í raun er bara verið að taka stórt skref inn í nú­ver­andi kvóta­kerfi,“ sagði Lilja Raf­ney í sam­tali við mbl.is fyrr í dag og bætti við: „Við töld­um að halda ætti þessu óbreyttu næsta árið en svo yrði allt und­ir þegar við tök­um fyr­ir heild­ar­end­ur­skoðun á stjórn fisk­veiða.“

Katrín Jakobsdóttir var ekki sátt við gang mála í dag.
Katrín Jakobsdóttir var ekki sátt við gang mála í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Stífar forsendur minnihlutans“

Aðspurður hvort hér sé um einhvers konar misskilning að ræða hjá stjórnarandstöðuliðum segir Jón það ekki fyllilega ljóst.

„Ekkert samkomulag um þinglok hefur verið kynnt fyrir okkur. Við teljum okkur hafa teygt okkur ansi nálægt andstöðunni í ýmsum málum þar sem við höfum gefið eftir helstu gagnrýnismál af þeirra hálfu. Eftir stendur að enginn vilji er til samninga nema á mjög stífum forsendum minnihlutans,“ segir Jón.

Hann segir ómögulegt að spá fyrir um hvort málið komi til með að leysast á næstu dögum, en vonast þó til þess.

„Við í nefndinni munum halda áfram vinnu okkar á grundvelli þessara breytingartillagna á fimmtudaginn þar sem við fáum hagsmunaaðila til fundar við okkur og fáum viðbrögð þeirra við þessu. Ég vona auðvitað að þinginu takist að leiða þennan ágreining allan í jörð þannig að við getum skilið við þingið með sómasamlegum hætti af allra hálfu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert