Sjóðandi vatn lenti á börnum við Strokk

Tvö börn sem fengu fyrsta og annars stigs brunasár á fótum við Strokk í Haukadal á mánudaginn eru nú á batavegi. Börnin voru að fylgjast með Strokki gjósa þegar mjög snörp vindhviða varð til þess að stór gusa af sjóðandi vatni lenti á börnunum og öðrum ferðamönnum.

Frétt mbl.is: Tvö börn brenndust á fótum

Börnin eiga íslenskan föður og búa ásamt honum og móður sinni í Grimstad í Noregi. Þau voru í fríi á Íslandi þegar slysið varð.

Hefðu átt að vera örugg

„Ég man alveg þegar við vorum að ganga upp að svæðinu að það var svolítið hvasst en ég hugsaði ekki út í það frekar,“ segir Pétur Reynisson, faðir barnanna í samtali við mbl.is. „Við sáum Strokk gjósa einu sinni eða tvisvar og fórum svo að skoða okkur um á svæðinu. Svo komum við aftur niður að Strokki og elsti sonur minn ákvað að taka upp á símann sinn þegar hann gaus næst. Við röðuðum okkur fyrir utan kaðalinn sem markar öryggissvæðið og stöndum með öðrum ferðamönnum.“

Á myndbandinu sem sonur Péturs tók má sjá að vindáttin er frá hópnum. „Það var ekkert sem benti til þess að þetta væri eitthvað hættulegt svæði. Við vorum á afmerktu og skilgreindu svæði og ættum því að vera örugg,“ segir Pétur.

Heyrði börnin gráta

Hann segir að allt hafi gerst mjög hratt eftir að Strokkur gaus en þá kom vindhviða úr annarri átt sem varð til þess að sjóðandi vatn lenti á Pétri og fjölskyldu hans. „Við vorum fyrst mjög hissa, ég finn að ég brenn mig á höfðinu en heyri að börnin eru aðeins byrjuð að gráta. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort þeim hafi bara brugðið eða hvort þau væru meidd. Það fyrsta sem ég hugsaði var að koma dóttur okkar niður í bíl en hún var blautust. Ég hleyp með hana í fanginu og reyni  að hugga hana,  en ég heyri á grátinum að þetta er eitthvað meira en að henni hafi brugðið. Hún fann greinilega til,” segir Pétur en dóttir hans er sex ára gömul.

„Við komum í bílinn og ég set hana í sætið og byrja að draga niður sokkabuxurnar og ég sé á öðru lærinu brunasár og átta mig á að þetta er alvarlegt,“ lýsir Pétur en stuttu síðar kemur eiginkona Péturs í bílinn með son þeirra sem fékk brunasár á ökkla. Hann er ellefu ára gamall.

Flutt með þyrlu til Reykjavíkur

Pétur fékk aðstoð hjá starfsfólki þjónustumiðstöðvarinnar við Geysi sem útveguðu skyndihjálpartösku til þess að hlúa að börnunum. Síðan var hringt í Neyðarlínuna og Pétur fékk þar leiðbeiningar um að senda börnin í kalda sturtu til að kæla niður sárin. „Fyrst kemur viðbragðsteymi sem var staðsett nálægt hverasvæðinu, ég veit ekki nákvæmlega var. Nokkrum mínútum seinna er sjúkrateymi frá Selfossi mætt ásamt lögreglu,“ segir Pétur. „Til þess að toppa þetta alltsaman var þyrla Landhelgisgæslunnar á æfingu rétt hjá. Þegar við vorum að kæla sárin sáum við að þetta var ekki líklega alvarlegt en það þyrfti að búa um sárin. Landhelgisgæslan vissi ekki hversu alvarlegt slysið var en tók hárrétta ákvörðun um að lenda og vera til taks.“

Að sögn Péturs var tekin ákvörðun um að flytja börnin með þyrlunni á sjúkrahús í Reykjavík. „Ég var að ræða við lögreglu um hvað gerðist og þegar ég kom til baka var búið að taka þá ákvörðun að fljúga með krakkana beint til Reykjavíkur. Þannig að þegar ég var búinn að tala við lögreglu var fjölskyldan mín bara horfin, öll komin um borð í þyrlunni og á leið á sjúkrahús, eitthvað sem við erum ákaflega þakklát fyrir.“

Pétur segir að börnin hafi skiljanlega verið hrædd og stressuð til að byrja með vegna sárana. Fjölskyldan er komin aftur til Noregs og skipt verður um umbúðir eftir nokkra daga. Þá kemur í ljós hversu vel sárin hafa gróið. Að sögn Péturs fengu börnin góðan skammt af verkjastillandi lyfjum en hafa ekki kvartað undan verkjum, aðeins kláða.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af atvikinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina