Enn fjarlægur draumur víða um heim

Hátíðarfundur fór fram á Alþingi í dag.
Hátíðarfundur fór fram á Alþingi í dag. Árni Sæberg

„Hið lýðræðislega samfélag, aðalsmerki okkar tíma, hornsteinn stjórnskipunarinnar var á engan hátt sjálfsagt eða auðvelt í mótun. Og er enn draumur milljóna, jafnvel milljarða kvenna og karla sem víða um veröld búa við höft og helsi, fátækt og kúgun.“

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ávarpi sínu á Alþingi í dag, en þar fór fram hátíðarfundur í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Mátti í dag meðal annars sjá fjölmargar fyrrverandi þingkonur sem tekið hafa fast sæti á Alþingi í hliðarsölum þingsins. Voru að auki viðstaddar Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra.

Við tilefni sem þetta sagði Ólafur Ragnar hollt að minnast hve torsótt réttindin voru. „Fáeinir frumherjar riðu á vaðið. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, með fyrsta opinbera fyrirlestri sem kona flutti í Reykjavík, Theódóra Thoroddsen, með skrifum í Þjóðviljann bæði á Ísafirði og á Bessastöðum. Greinar hennar og annarra kvenna oft undir dulnefni því tíðarandinn leyfði ei annað,“ sagði Ólafur Ragnar.

Fagnaðarstund fátækrar alþýðu

Þau tímamót sem nú er minnst voru einnig fagnaðarstund hinnar fátæku alþýðu, bæði karla og kvenna. „Því örbirgðin var ekki lengur ævarandi útlegðardómur frá lýðræðislegum áhrifum. Innan nokkurra ára höfðu snauðir sem ríkir, konur og karlar, fengið sjálfstæðan sess og sama rétt til að kjósa sér fulltrúa á löggjafarþingið þótt hinir allra fátækustu yrðu að bíða enn lengur.“

Benti Ólafur Ragnar einnig á að fyrstu 30 árin á eftir tóku einungis tvær konur sæti á Alþingi. „Á kjörtímabilinu frá 1953 til 1971 hlaut ýmist ein kona, tvær eða jafnvel engin kosningu til Alþingis. Og reyndar aðeins þrjár við hverjar kosningar næstu tíu árin þar á eftir. Sú víðtæka þátttaka kvenna sem nú setur jafnan svipmót á löggjafarstörfin nær því aðeins til um síðasta þriðjungs þeirra hundrað ára sem liðin eru frá þáttaskilum í formlegum réttindum,“ sagði Ólafur Ragnar.

Þessi staðreynd segir forsetinn minna okkur á að árangur í baráttunni fyrir breyttu þjóðfélagi byggir ekki einungis á lagatextum. Heldur byggir árangurinn einnig á hugarfari fólks, siðmenningu, aðstæðum og uppeldi.

„Þótt lítið breyttist lengi vel hefur á undanförnum áratugum náðst verulegur árangur í áhrifum kvenna. Og Ísland líklega nú eina landið í veröldinni þar sem konur hafa gegnt öllum æðstu stöðum ríkis og kirkju. Verið í forsæti löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, setið á biskupsstóli og í sæti þjóðhöfðingjans,“ sagði Ólafur Ragnar í ávarpi sínu.

Sammannleg skylda okkar

Þá benti forsetinn einnig á að Ísland skipar nú æðstu sætin í alþjóðlegum mælingum á réttindum og sessi kvenna, aðstöðu til menntunar og áhrifa. „Víða um heim líta konur til Íslands sem fyrirmyndar.“

Þótt tilefni sé til að gleðjast hér á landi sagði forsetinn ekki síður mikilvægt að hugsa til stöðu kvenna víða um heim. „Ekki aðeins í fjarlægum álfum heldur líka í fátækrahverfum Vesturlanda. Þær eiga langa för fyrir höndum til að ná í þann áfangastað sem markar á hverjum degi tilveru okkar Íslendinga. Við skulum strengja þess heit að bregðast þeim ekki. Það er sammannleg skylda að létta fjarlægum systrum slíka för, að vera við hlið þeirra í baráttunni, að nýta okkar eigin árangur til að styðja kröfur þeirra um réttlæti.“

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert