„Femínismi er ekki mamma þín“

Jafnt ungir sem aldnir komu saman á Austurvelli.
Jafnt ungir sem aldnir komu saman á Austurvelli. mbl.is/Golli

Fólk á öllum aldri og toga kom saman á Austurvelli í dag til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Margir létu nægja að hlusta á ræður, sýna sig og sjá aðra en nokkuð var um einstaklinga og hópa sem skildu sig frá mannhafinu með áberandi stuðningi við ákveðin málefni innan jafnréttisumræðunnar.

Þeirra á meðal voru þeir Hilmar Bjarni Hilmarsson og Hjalti Hilmarsson sem báðir eru yfirlýstir femínistar og mættu að eigin sögn á Austurvöll til að sýna konum og stétt hjúkrunarfræðinga stuðning.

„Í staðinn fyrir að bæta kjörin fá þær styttu," segir Hilmar. „Það er meira hugsað um ímynd en alvöru.“

„Þessi daga er fyrir alla sem styðja konur,“ segir Hjalti þegar blaðamaður spyr hvort það sé pláss fyrir karla á kvennadeginum. Hilmar tekur undir og bendir á hina gamalkunnu klisju um að allir eigi móður. Í hans tilviki sé fyrsta myndin sem til er af honum og bróður hans tekin þar sem þeir eru á viðlíka viðburði á vegum Kvennalistans með móður sinni. Skyldi jafnréttisbaráttan þeim þá í blóð borin? „Að sjálfsögðu. Að berjast fyrir réttindum kvenna er að berjast fyrir réttindum mannkynsins“

„Ég er leiður á því að það hafi ekki orðið nein Sjomlatipsbylting,“ segir Hilmar og vísar til Beauty tips byltingarinnar sem tekið hefur yfir samfélagsumræðuna að undanförnu. Hann kveðst þekkja nokkuð af karlmönnum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og segir leitt að þeir hafi ekki stigið fram og bætt sinni rödd í umræðuna. „Við þurfum að búa til platform fyrir karlkyns þolendur.“

„Mér finnst leiðinlegt að það heyrist hærra í karlrembum en öðrum karlmönnum. Mér finnst karlmenn sem styðja femínisma vera alltof passívir,“ segir Hjalti og Hilmar tekur undir. „Svo eru það þeir sem hvarta yfir því að femínismi geri ekki nóg fyrir þá, en femínismi er ekki mamma þín. Ef karlmenn vilja að femínismi taki á þeirra málum þá þurfa karlmenn að rísa upp. 

Ójafnrétti á degi jafnréttis

Eyrún Arnardóttir og Edda Rún Hjartardóttir, hjúkrunarfræðinemar, hafa nýlokið við að syngja með stórum hópi hjúkrunarfræðinga fyrir framan Alþingi þegar blaðamaður nær af þeim tali. 

„Við erum spenntar fyrir því að vera hjúkrunarfræðingar og okkur langar að vinna á Íslandi,“ segir Eyrún. „Ég sé mikið af tækifærum til að bæta heilbrigðiskerfið okkar og mig langar til að sjá hag í því að vera hér áfram.“

„Það er talað um jafnrétti í dag en á sama tíma erum við að berjast við ójafnrétti,“ segir Edda og Eyrún tekur undir. Þær stóðu báðar, á nánast sama stað fyrir nákvæmlega viku síðan og mótmæltu banni á verkfall stéttarinnar, en höfðu ekki erindi sem erfiði. „Ég trúði því ekki að það gæti gerst að bannið yrði sett, en svo var það raunin,“ segir Eyrún. 

Þær stöllur ljóma báðar þegar blaðamaður spyr þær út í áhuga þeirra á faginu. Hvorugar segjast þær hafa hugsað sérstaklega út í hjúkrun þegar þær voru yngri. Eyrúna segist hafa álpast í vinnu á hjúkrunarheimili og þannig heillaðist hún af faginu en Edda vann í bítibúrinu á Hreiðrinu. „Ég sá hvað það var frábær stemning á meðal ljósmæðra. Þetta var fyrsti vinnustaðurinn sem ég vann á þar sem allir voru hamingjusamir í vinnunni.“

Stúlkurnar benda á að til þess að verða ljósmóðir þurfi Edda að bæta við sig tveggja ára námi og að hjúkrun fylgi í raun fleiri tímar en við hefðbundið háskólanám. „Síðasta vetur vann ég átta vikur, fulla vinnu inni á spítalanum, launalaust í verknámi,“ segir Eyrún. 

Báðar segja þær að eins og staðan sé í dag sjái þær fyrir sér að sækja um norska og sænska hjúkrunarleyfið á sama tíma og það íslenska og Eyrún dæsir. „En það er ekki draumastaða.“

„Þetta er ekki tómarúm“

Vopnaðar appelsínugulum og gulum litum heilsa þær Steinunn Ýr Einarsdóttir, Hertha Richardt Úlfarsdóttir og Árný Elínborg Ásgeirsdóttir næstum hverja einasta manni á Austurvelli og bjóða fram andlitsmálningu. Uppátækið rekur uppruna sinn til fyrrnefndrar Beauty tips byltingar þar sem þolendur kynferðisofbeldis voru með appelsínugula prófílmynd á Facebook og þeir sem þekktu þolendur voru með gula slíka. 

„Við ákváðum að stíga úr netheimum og í raunheima og berjast enn frekar við ofbeldið sem þöggun er,“ segir Árný.  Steinunn, Hertha og Árný skarta allar appelsínugulri málningu og segir Árný að þó það sé ekki á allra færi að taka slíkt skref séu þær vel í stakk búnar eftir mikla vinnu með sálfræðingum og Stígamótum. 

 „Við vildum nálgast fólk, hafa þetta svolítið persónulegra svo það væri einhver að bjóða þolendum að taka skrefið, frekar en að ábyrgðin liggi alltaf hjá þeim sjálfum," grípur Hertha inn í. „Þetta er ekki tómarúm og fólk þarf að vita af stuðningnum.“

Stúlkurnar segja afar vel hafa verið tekið í andlitsmálninguna og minnist Árný sérstaklega á fyrstu stundina þar sem hún málaði vegfaranda. „Hún hugsaði sig aðeins um og svo sagði hún: Já, ég vil fá appelsínugulan. Það myndaðist einhver nánd á milli okkar, það myndast nánd á milli þeirra sem hafa orðið fyrir svona og maður finnur fyrir stuðningnum.“

„Það er búin að myndast rosalega mikil samkennd á milli kvenna á netinu núna,“ segir Steinunn og er fljót að bæta við „Og karlmanna líka.“ Árný tekur undir og segist hafa séð talsvert af karlmönnum með appelsínugular myndir og að sömuleiðis hafi margir karlar haft samband við hana sem enn þora ekki að koma fram. Þær eru þannig sammála þeirri hugmynd að kynferðisofbeldi sé ekki einkamál annars kynsins en segja baráttuna gegn þeim þó eiga afar vel við á Kvennadeginum.

„Konur eru í meirihluta þegar kemur að þolendum kynferðisofbeldis, allavega miðað við það sem tölur sýna. Því á þessi hugmynd um að tala gegn ofbeldi brýnt erindi til kvenna.“

Hjalti og Hilmar segja sér eðlislægt að berjast fyrir jafnrétti.
Hjalti og Hilmar segja sér eðlislægt að berjast fyrir jafnrétti. mbl.is/Golli
Húkrunarnemarnir eru ekki bjartsýnir.
Húkrunarnemarnir eru ekki bjartsýnir. mbl.is/Golli
Það stafaði alúð og umhyggja af þeim Árný, Steinunni og …
Það stafaði alúð og umhyggja af þeim Árný, Steinunni og Herthu sem máluðu andlit vegfarenda. mbl.is/
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert