Hljóp 11 ferðir upp og niður Esjuna

Friðleifur í hlaupinu í nótt.
Friðleifur í hlaupinu í nótt. Af Facebook-síðu Mt. Esja Ultra

Friðleifur Friðleifsson kom fyrstur í mark í lengstu vegalengd Esjuhlaupsins í dag, en þar hljóp hann ellefu ferðir upp og niður Esjuna, samtals 77 kílómetra, á ellefu klukkustundum, 33 mínútum og tveimur sekúndum.

Esjuhlaupið var haldið í fjórða sinn í dag, en Friðleiður hefur tekið þátt öll árin og verið fyrstur í mark í lengstu vegalengdunum síðustu þrjú ár, og 5 ferða hlaupi upp og niður Esjuna fyrsta árið. Boðið var upp á þrjár vegalengdir í ár, en auk ellefu ferða hlaupsins upp að Steini gátu þátttakendur einnig valið að hlaupa tvær ferðir upp að Steini (14 km) eða nýja maraþonleið (42 km). Samtals tóku tæplega 70 manns þátt.

Einblíndi ekki á tímann

„Ég vissi nokkuð vel hvað ég var að fara út í. Ég hljóp þetta í fyrra undir ellefu tímum en ég var búinn að ákveða í ár að vera ekki að einblína á tímann,“ segir Friðleifur og bætir við að tæknin hans sé ósköp hefðbundin. „Ég kraftgeng bröttustu kaflana og hleyp allt hitt. Svo verður maður að passa hvar maður stígur þegar maður hleypur niður og gera það eins hratt og skrokkurinn þolir.“

Ræst var í hlaupið á miðnætti, en auk Friðleifs hófu fjórir aðrir hlauparar keppni. Þar á meðal var ein kona, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, en hún er fyrsta konan sem tekur þátt í ellefu ferða hlaupinu. Allir þátttakendur luku keppni.

Hljóp síðustu ferðirnar fyrir syni sína

Friðleifur segir það hafa verið ákveðna áskorun að hlaupa um nótt, en hann kom í mark um klukkan hálf tólf á hádegi eftir að hafa hlaupið frá miðnætti. „Það voru fáir á ferli og það liggur við að menn hafi verið einir í fjallinu fram undir morgunn með fuglunum,“ útskýrir hann og bætir við að mikilvægt sé að hugurinn sé á réttum stað þegar farið er út í hlaup af þessu tagi.

„Þetta reynir ekki bara á þol og vöðva, heldur er þetta líka ofboðsleg vinna fyrir hausinn. Það er dágóður spotti upp að Steini svo þegar maður er að fara þangað ellefu sinnum þarf maður að vera með ákveðna hausavinnu í gangi líka,“ segir hann og heldur áfram:

„Þrjár síðustu ferðirnar eru yfirleitt þær sem eru hvað erfiðastar, en ég ákvað til dæmis núna að taka eina ferð fyrir hvern af strákunum mínum. Maður stillir einhver svona furðuleg verkefni inn bara til að halda ákefðinni,“ segir hann. „Ég held að flestir séu með einhverjar svona möntrur sem þeir vinna út frá.“

Undirbjó sig ekki sérstaklega

Friðleifur hefur stundað hlaup í nokkur ár og tekið þátt í löngum hlaupum erlendis, ásamt því að hafa tekið þátt í ýmsum hlaupum hér heima. Hann hefur ósjaldan hlaupið utan vega, og segir það eiga vel við sig. „Ég hef hlaupið flestöll utanvegahlaup á Íslandi; Laugarveginn, Jökulsárhlaupið, Vesturgötuna, 7 tinda hlaupið og Snæfellsjökulinn svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann.

Friðleifur segist því ekki hafa undirbúið sig sérstaklega fyrir þetta hlaup, sem sé þó ólíkt mögrum öðrum sem hann hafi hlaupið þar sem í því sé 6.600 metra hækkun 77 kílómetra vegalengd. „Ég æfi töluvert og er töluvert að hlaupa á hverjum degi. Fyrir reyndari hlaupara er ekki nauðsynlegt að fara út í neitt sérstakt prógramm fyrir þetta hlaup. En fyrir þá sem eru ekkert sérstaklega reyndir í þessu er vissara að plana svolítið hvernig þeir ætla að takast á við þetta verkefni,“ segir hann og bætir við að þeir sem vilji æfa sig geti gert það með því að hlaupa Esjuna og önnur fjöll í nágrenni Reykjavíkur.

Þá segir hann mikilvægt að brjóta verkefnið upp í ákveðna hluta og gott sé fyrir hlaupara að skipuleggja það hvernig þeir ætli að klára verkefnið. „Ég vissi til dæmis alveg út í hvað ég var að fara því ég hafði hlaupið þetta í fyrra. Það er ekkert meiriháttar vandamál að klára ef maður stillir álagið þannig að maður sé ekki að hlaupa sig út úr hlaupinu.“

En hvernig var svo tilfinningin að koma í mark eftir svona langt og krefjandi hlaup? „Það var æðislegt. Það er alltaf æðislegt þegar það gengur vel og maður kemur heill út úr þessu. Þetta á ágætlega við mig. Maður er að vinna í fjallinu og svo líður tíminn og líður og svo er þetta bara búið.“

Hér fyrir neðan má sjá Friðleif koma í mark, og hér má sjá úrslit hlaupsins.

Friðleifur kemur fyrstur í mark í ellefu ferðum á glæsilegum tíma! #esjaultra

Posted by Mt. Esja Ultra on Saturday, June 20, 2015
Halldóra er fyrsta konan sem tekur þátt í ellefu ferða …
Halldóra er fyrsta konan sem tekur þátt í ellefu ferða hlaupinu upp og niður Esjuna. Af Facebook-síðu Mt. Esja Ultra
Hópurinn sem tók þátt í 77 kílómetra hlaupinu, eftir þrjár …
Hópurinn sem tók þátt í 77 kílómetra hlaupinu, eftir þrjár ferðir. Á myndina vantar Friðleif sem var lagður af stað í fjórðu ferð. Af Facebook-síðu Mt. Esja Ultra
Sumir fengu sér hressingu eftir hlaupið.
Sumir fengu sér hressingu eftir hlaupið. Af Facebook-síðu Mt. Esja Ultra
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert