Staðfesti kyrrsetningu á eignum Strawberries

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík á eignum sem tengjast rekstri Strawberries sem lögreglan hefur rannsakað vegna ítrekaðra upplýsinga um að þar færi fram vændisstarfsemi. Um er að ræða fasteignir, ökutæki og fleiri hluti að andvirði rúms hálfs milljarðs króna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði aflað upplýsinga um rekstur Strawberries frá því í júní 2013 en ítrekaðar upplýsingar höfðu borist henni um vændisstarfsemi. Fóru óeinkennisklæddir lögreglumenn meðal annars á staðinn til að kanna hvers konar starfsemi færi fram á honum. Var þeim boðin kynlífsþjónusta gegn greiðslu.

Í kjölfarið var húsleit gerð á staðnum og ýmsir einstaklingar handteknir og yfirheyrðir í tengslum við málið. Lögreglan óskaði eftir því við sýslumanninn í Reykjavík að hann kyrrsetti eignir til tryggingar kröfum allt að fjárhæð rúmra 532 milljóna króna. Var beiðnin sett fram þar sem hætta þótti á því að eignunum yrði skotið undan eða að þær glötuðust eða rýrnuðu til muna.

Eigandi staðarins skaut málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu hans um að fella kyrrsetninguna úr gildi. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð í gær. Beindi Hæstiréttur því til ákæruvaldsins að hraða meðferð málsins en það kom til meðferðar ríkissaksóknara í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert