Vill byrja þingfundi á söng

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ómar

„Ég kem nú ekkert endilega til að kvarta undan fundarstjórninni en mér sýnist þessi dagur ætla að byrja eins og flest allir undanfarið - í þessum leik hér í pontu um fundarstjórn forseta,“ sagði Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, við upphaf ræðu sinnar á Alþingi í dag.

Til umræðu var dagskrárliðurinn um fundarstjórn forseta og nýtti þingheimur sér hann til hinna ýmsu mála.

Páll Valur vék í ræðu sinni að því þegar bygging Alþingis var opin almenningi í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Sóttu þá um 1.500 manns þingið heim.

„Ég sat hér inni í hliðarherbergi og talaði við einn af starfsmönnum þingsins. Við ræddum hvernig ástandið hefur verið hér undanfarið og þá kom hún með þá frábæru uppástungu að mér fannst - að þingforseti, hæstvirtur, ætti að hefja alla þingfundi á söng,“ sagði Páll Valur og hélt áfram:

„Við ættum að syngja eitt lag saman áður en við byrjuðum þingfundi. Og mér finnst þetta frábær hugmynd,“ sagði hann. Að söng loknum ætti þingheimur því næst að „íhuga í fimm mínútur í þögn.“

„Þetta hefur verið reynt í skólum í Bandaríkjunum - íhugun í 15 mínútur í erfiðustu skólum Los Angeles og það virkaði. Þeir eru með þeim bestu í dag,“ sagði hann og benti á að með þessari aðferð væri hægt að bjóða upp á uppbyggilegt starf innan Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina