Kjarasamningur í höfn

Ólafur G. Skúlason, formaður FÍH og Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari.
Ólafur G. Skúlason, formaður FÍH og Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjúkrunarfræðingar undirrituðu nýjan kjarasamning við ríkið um klukkan 22 í gærkvöldi.

Samningurinn gildir frá 1. maí sl. til loka mars 2019. Í honum er ekki launatryggingarákvæði eins og í samningum sem gerðir hafa verið á almenna markaðnum, en hægt verður að opna samninginn ef laun á almennum markaði fara á skrið.

„Miðað við aðstæður, þessi þvingunarúrræði sem við stóðum frammi fyrir, þá ákváðum við að betra væri að hjúkrunarfræðingar fengju að kjósa um niðurstöðu samningsins frekar en að hlíta einhliða niðurstöðu gerðardóms,“ sagði Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH). „Nú fá hjúkrunarfræðingar að kjósa um niðurstöðuna, sem þeir hefðu ekki fengið ef þetta hefði farið í gerðardóm. Við erum mjög ánægð með það.“ Hann sagði að samninganefnd FÍH hefði komist „að þeirri niðurstöðu að gerðardómur kæmist aldrei að betri niðurstöðu en er í samningnum, miðað við þær forsendur sem eru í lögunum.“

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, sagði að samningurinn væri í heildina innan kostnaðarrammans sem nefndinni hefði verið settur. Hann sagði að heildarútfærslunni og stofnanaframlagi hefði verið breytt.

Ólafur sagði að samninganefndin hefði ekki náð fram nokkrum stórum málum í þessari lotu. „Við erum ekki að ná markmiðum okkar um að jafna kynbundinn launamun og ekki að ná markmiðum um að menntun hjúkrunarfræðinga verði metin til jafns við önnur háskólamenntuð störf.“

Nú tekur við kynning á samningnum fyrir hjúkrunarfræðingum og atkvæðagreiðsla. Niðurstaða úr henni á að liggja fyrir 15. júlí.

Samningafundurinn hófst klukkan níu í gærmorgun og stóð því í um 13 klukkustundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert