Gerðu ráð fyrir að leyfa hefði verið aflað

Tilkynning hefur borist Samgöngustofu frá Icelandair vegna vopnaflutninganna.
Tilkynning hefur borist Samgöngustofu frá Icelandair vegna vopnaflutninganna. mbl.is/Sigurður Bogi

Icelandair hefur sent Samgöngustofu tilkynningu um að vél fyrirtækisins hafi flutt hríðskotabyssur fyrir Landhelgisgæsluna til Noregs. Ekki var aflað leyfis fyrir sendingunni eins og lög gera ráð fyrir. Samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu mun Icelandair skoða málið í samræmi við öryggisstjórnunarkerfi sitt.

Vélbyssurnar 250 voru fluttar með farþegaflugvél Icelandair til Noregs á miðvikudag en í ljós hefur komið að það var gert án þess að tilskilið leyfi fyrir flutningunum lægi fyrir frá Samgöngustofu. Kveðið er á um nauðsyn slíks leyfis í lögum um flutning hergagna með loftförum.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni í gær kom fram að hún hafi falið flutningafyrirtækinu DHL að flytja vopnin. Það sé á ábyrgð flugrekanda að afla leyfis frá Samgöngustofu en ekki Gæslunnar. Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir að Landhelgisgæslan hafi enga ástæðu haft til að ætla að þeir viðurkenndu fagaðilar sem sáu um og báru ábyrgð á flutningnum hefðu ekki aflað tilskilinna leyfa.

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Samgöngustofa að flugrekandinn hafi brugðist við eins og reglur geri ráð fyrir og sent stofnuninni tilkynningu um atvikið. Í kjölfarið verði málið skoðað í samræmi við öryggisstjórnunarkerfi Icelandair en hlutverk þess sé meðal annars að greina frávik og gera fyrirbyggjandi ráðstafanir eftir því sem við á.

Gjöf eða ekki gjöf

Töluverðar deilur sköpuðust um vopnavæðingu lögreglunnar í október í fyrra eftir að í ljós kom að Landhelgisgæslan hafði fengið 250 hríðskotabyssur af gerðinni MP5 frá norskum yfirvöldum árið 2013. Þær bárust til landsins í febrúar 2014. Lögreglan átti að fá 150 þeirra en Gæslan hundrað.

Í fyrstu héldu talsmenn lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar því fram að byssurnar hefðu verið gjöf frá Norðmönnum en þarlend yfirvöld báru það til baka. Tollstjóri innsiglaði vopnin á Keflavíkurflugvelli í lok október 2014 þar sem ekki var búið að greiða af þeim tilskilin gjöld og tolla. Í nóvember var tilkynnt að vopnunum yrði skilað til Noregs þar sem ekki kæmi til greina að kaupa þau af Norðmönnum. Dráttur varð þó á því að byssurnar væru sendar til baka. Í janúar sagði upplýsingafulltrúi Gæslunnar að beðið væri eftir „hentugu tækifæri“ til þess.

Byssurnar voru svo sendar til Noregs með farþegaflugi á vegum Icelandair á miðvikudaginn 24. júní. Í ljós kom hins vegar ekki hafði verið aflað tilskilinna leyfa fyrir flutningnum en samkvæmt lögum um flutning hergagna þarf Samgöngustofa að veita slíkt leyfi. Byssurnar eru engu að síður komnar úr landinu og í öruggar hendur norska yfirvalda.

MP5-hríðskotabyssa.
MP5-hríðskotabyssa.
mbl.is

Bloggað um fréttina