„Fólki er ekki sama“

Slæmt ástand er á girðingum að sögn Jóns, en kindur …
Slæmt ástand er á girðingum að sögn Jóns, en kindur fara gjarnan inn í garðinn og éta blóm af leiðum. Ljósmynd/Jón Ólafur

„Móðir mín sagði mér með tár í augunum að rollur hefðu í tvígang étið öll blóm að leiði föður míns sem og mörgum öðrum gröfum áður en einhver kom og „lappaði“ upp á kindagirðinguna,“ segir Jón Ólafur Björgvinsson í pistli á vefnum Sigló.is, en er lýst því sem hann kallar „hörmungarástand í kirkjugarðinum“.

„Mér hefur alltaf fundist að kirkjugarðar eigi að vera eitthvað fallegt, eitthvað sem býður upp á rólegheit og íhugun í fallegu umhverfi,“ segir hann ennfremur.

Rafmagnslína liggur ofanjarðar við garðinn.
Rafmagnslína liggur ofanjarðar við garðinn. Ljósmynd/Jón Ólafur

Príla yfir leiði

Jón segir í samtali við mbl.is að ástandið í garðinum virðist hafa hríðversnað undanfarin ár. Þannig sé fólk lagt gríðarlega þétt í garðinum og ástvinir þurfi jafnvel að príla yfir leiði til að komast að sínu fólki. 

„Ég held að allir geti verið sammála um að þegar kemur að því að huga að okkar látnu ástvinum þá er fólki ekki sama,“ segir Jón. Í pistlinum birtir hann myndir sem sýna m.a. illa hirtar girðingar, illgresi og ósnyrta runna, moldarhaug, rusl og rafmagnslínu sem liggur ofanjarðar við stóran kross. Þá má sjá á einni mynd hvernig garðverkfæri liggja ónotuð bak við ósnyrtan runna.

Moldarhaugur á svæðinu.
Moldarhaugur á svæðinu. Ljósmynd/Jón Ólafur

Skortur á fjármunum og mannafla

Sigurður Hlöðversson, formaður sóknarnefndar, segir ástandið á Siglufirði lítið verra en í öðrum kirkjugörðum landsins. Þá segir hann fjárskort og vöntun á mannafla helstu orsakir vandans. „Við höfum bara ekki fengið mannskap í að leysa þetta, en málið fer allt að komast í lag. Ég held að þetta sé ekki í meiri ólestri hér heldur en víða,“ segir Sigurður.

Hann segir að auglýst hafi verið eftir fólki til að sinna umhirðu í garðinum, en aðeins einn hafi haft samband. „Það væri ekki verra ef einhverjir góðir borgarar vildu bara hjálpa okkur við þetta í sjálfboðavinnu. Annars er strákur sem var hérna í fyrra að reyna að bjarga þessu á einhvern hátt. Hann er í annarri vinnu, en kemur tvo daga í viku og er byrjaður á verkinu,“ segir Sigurður.

Verkfæri liggja ónotuð við runna.
Verkfæri liggja ónotuð við runna. Ljósmynd/Jón Ólafur

„Hobbíbændum“ fjölgar í bænum

Hann segir girðingar í kringum garðinn vera á forræði bæjarins og bendir á að ágangur kinda hafi verið mikið vandamál í bænum undanfarin ár. „Bæjarstjórn tók upp  á því fyrir örfáum árum að leyfa fjárhald hérna og síðan hafa sprottið upp svona „hobbíbændur“ hér og þar sem eflaust hafa ekki miklar áhyggjur af þessu.“

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, hafði ekki heyrt af málinu þegar mbl.is hafði samband við hann. Sagði hann þó að málið yrði að sjálfsögðu skoðað og leyst með viðunandi hætti. 

Krossar eru víða skakkir að sögn Jóns.
Krossar eru víða skakkir að sögn Jóns. Ljósmynd/Jón Ólafur

Orgelkaup ekki orsökin

mbl.is barst ábending um að fjárskortur sóknarinnar stafaði af orgelkaupum með tilheyrandi lánum í erlendri mynt. Þetta segir Sigurður hins vegar að sé fjarstæða. „Þetta kemur engum orgelkaupum við. Fjárhagur kirkjugarðs Siglufjarðar er alveg aðskilinn fjárhag kirkjunnar. Það er löngu búið að greiða fyrir þetta orgel, en við erum með stórt og glæsilegt guðshús sem kostar milljónir að halda við. Áhvílandi skuldir á kirkjunni eru því vegna viðhalds.“

Hann segir fjárskort viðvarandi vandamál í kirkjugörðum um allt land. „Kirkjugarðarnir hafa einfaldlega ekki úr miklum pening að moða. Kirkjugarðurinn fær ákveðnar tekjur og kirkjan ákveðnar tekjur og hvort tveggja hefur verið skorið niður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina