Sleppti fundum og viðburðum

Snædís Rán Hjartardóttir
Snædís Rán Hjartardóttir Mynd úr einkasafni

Bætur sem Snædísi Rán Hjartardóttur voru dæmdar í Héraðsdómi Reykjavíkur snúa bæði að tveimur tilvikum þar sem hún greiddi sjálf fyrir túlkaþjónustu og að ólögmætri meingerð gegn persónu hennar, þar sem vanræksla ríkisins olli því að hún fékk ekki viðhlítandi aðstoð vegna fötlunar sinnar. Þannig þurfti hún að sleppa fundum og viðburðum vegna þess að hún vildi ekki óska eftir túlkaþjónustu af ótta við að fjármunir í sjóði, sem notaður var í málaflokkinn, myndu klárast.

Frétt mbl.is: Snædís vann málið gegn ríkinu

Snæ­dís þjá­ist af arf­geng­um tauga­hrörn­un­ar­sjúk­dómi sem hef­ur valdið henni sjón­missi, heyrn­ar­missi og hreyfi­höml­un. Öll þátt­taka henn­ar í dag­legu lífi er háð því að hún njóti aðstoðar túlks. Hún höfðaði mál á hendur Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og íslenska ríkinu, auk Reykjavíkurborgar til vara. Hún gerði þrjár kröfur, en í fyrri tveimur krafðist hún þess að tilteknar synjanir á túlkaþjónustu yrðu dæmdar óheimilar og ólögmætar. Þessum kröfuliðum var vísað frá. Í þriðja lið krafðist hún miskabóta upp á ríflega eina milljón króna. Ríkið var dæmt til að greiða henni bætur í samræmi við þriðja kröfuliðinn, þó að dæmd upphæð væri aðeins um helmingur þess sem krafist var.

Greiddi sjálf á fundum í MH og Fjólu

Snædísi var m.a. hafnað um túlkaþjónustu á stjórnarfundi í Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Þannig var henni tjáð að sjóður með framlögum ætluðum til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu væri uppurinn, og því ekki heimilt að veita þjónustuna nema gegn gjaldi. Sama átti við á fundi hjá nemendafélagi Menntaskólans við Hamrahlíð, þar sem Snædís stundaði nám. Einungis fyrir þessa tvo fundi þurfti Snædís sjálf að greiða ríflega 50 þúsund krónur.

Helstu rök Snædísar í málinu voru þau að miðstöðin veitti henni ekki þá þjónustu sem hún þyrfti á að halda til að geta tjáð sig og tekið þátt í lífi og starfi til jafns við aðra, enda sé túlkaþjónustan nauðsynleg til þess. Vísaði hún þannig til laga um málefni fatlaðs fólks máli sínu til stuðnings, auk nokkurra greina stjórnarskrárinnar. Þannig vísar hún til 76. gr. um aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar eða sambærilegra atvika auk 73. gr. um tjáningarfrelsi og jafnræðisreglu í 65.gr.

Telur hún nefnda 76. gr. leggja á ríkið jákvæðar skyldur til að tryggja fötluðum aðstoð. Vísaði hún jafnframt til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Auk þess benti Snædís á að hún hefði ekki fengið kost á að koma á framfæri andmælum við ákvörðunum stofnunarinnar og þannig hefði verið brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat, rannsóknarreglu og andmælarétt.

Reglugerðin var aldrei sett

Í vörn íslenska ríkisins kom m.a. fram að fyrsti kröfuliðurinn væri of óskýr, en í öðrum kröfulið væri leitað álits dómstóla sem bryti gegn þeirri reglu að til þess að fá skorið úr dómsmáli þurfi aðili að hafa af því lögvarða hagsmuni. Þá var bent á að í reglugerð sem fjalli um táknmálstúlkaþjónustu sé m.a. kveðið á um að verkefni stofnunarinnar sé að veita þjónustuna gegn gjaldi eða endurgjaldslaust samkvæmt nánari ákvæðum í gjaldskrá. Gæta skuli jafnræðis milli notenda þjónustunnar með tilliti til þeirrar fjárveitingar sem til ráðstöfunar sé hverju sinni.

Einnig var bent á að þegar ákvörðun var tekin um að veita fé á fjárlögum til að tryggja endurgjaldslausa túlkaþjónustu hafi staðið til að setja reglugerð um ráðstöfun fjárins og framtíðarskipan þjónustunnar. Af þessu hafi ekki orðið, heldur Félag heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðin búið til vinnureglur sem stuðst var við.

Sleppti viðburðum af ótta við að klára úr sjóðnum

Í dómnum er vísað til 76. gr. stjórnarskrárinnar og því slegið föstu að hún veiti fólki með fötlun á borð við Snædísar rétt til lágmarksaðstoðar, án þess að það skapi þeim fjárhagslega byrði. Þá kemur fram í dómnum að Snædís virðist hafa stillt beiðnum sínum í hóf, eflaust af ótta við að sjóðurinn myndi klárast á endanum yrði gengið of mikið á hann. Þannig hafi hún sleppt ýmsum viðburðum og fundum vegna þess að hún vildi ekki óska eftir túlkaþjónustu.

Vanrækslan beindist ekki sérstaklega að Snædísi

Snædísi voru dæmdar 50.670 krónur í endurgreiðslu vegna þeirra gjalda sem hún greiddi sjálf fyrir fyrrnefnda fundi. Þá voru henni dæmdar 500 þúsund krónur í miskabætur, enda hafi ríkið vanrækt að setja reglur og byggja upp kerfi til að tryggja einstaklingum á borð við Snædísi viðhlítandi aðstoð á jafnræðisgrundvelli. Var því talið að um ólögmæta meingerð gegn persónu hennar að ræða. Eins og fyrr segir nema miskabæturnar aðeins helmingi þeirrar upphæðar sem hún krafðist, en í dómnum segir m.a. að líta verði til þess að um almenna vanrækslu sé að ræða sem ekki beinist sérstaklega að Snædísi auk þess sem vanrækslan snúi að því að tryggja ekki lágmarksaðstoð á sviðinu sem gengur skemur en kröfur Snædísar.

Sýndi kjark og þor

Í ljósi niðurstöðunnar gagnvart íslenska ríkinu þurfti ekki að taka tillit til krafna á hendur Reykjavíkurborg. Óskar Thorarensen, lögmaður ríkisins og Samskiptamiðstöðvarinnar, vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið. Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Snædísar, hrósaði henni fyrir kjark og þor í samtali við mbl.is.

„Í þessu felst viður­kenn­ing á þeirri aug­ljósu staðreynd að ríkið hef­ur um langa tíð brotið með mjög gróf­um hætti gegn mann­rétt­ind­um þess­ara ein­stak­linga. Það þurfti Snæ­dísi Hjart­ar­dótt­ur og henn­ar kjark og þor til að kenna rík­inu þá lex­íu. Við skul­um vona að það dugi til.“

Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is
Páll Rúnar M. Kristjánsson er lögmaður Snædísar.
Páll Rúnar M. Kristjánsson er lögmaður Snædísar. Ljósmynd/Málflutningsstofa Reykjavíkur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert