Snædís vann málið gegn ríkinu

Snædís Rán Hjartardóttir.
Snædís Rán Hjartardóttir. Mynd úr einkasafni

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Snædísi Rán Hjartardóttur 550.670 kr. í miskabætur en hún höfðaði mál gegn Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnaskertra vegna þess að miðstöðin synjaði Snædísi um endurgjaldslausa túlkaþjónustu.

Snædís höfðaði málið eftir að henni var synjað um endurgjaldslausa túlkaþjónustu. Í stefnunni er viðurkenningar krafist á því að ríkinu hafi ekki verið heimilt að synja Snædísi um endurgjaldslausa túlkaþjónustu frá 7. október 2014. Jafnframt var krafist endurgreiðslu á því fé sem Snædís hefur þurft að greiða sjálf fyrir túlka.

Snædís þjá­ist af arf­geng­um tauga­hrörn­un­ar­sjúk­dómi sem hef­ur valdið henni sjón­missi, heyrn­ar­missi og hreyfi­höml­un. Öll þátt­taka henn­ar í dag­legu lífi er háð því að hún njóti aðstoðar túlks. Snædís útskrifaðist sem stúdent úr Menntaskólanum við Hamrahlíð í vor.

„Í þessu fellst viðurkenning á þeirri augljósu staðreynd að ríkið hefur um langa tíð brotið með mjög grófum hætti gegn mannréttindum þessara einstaklinga. Það þurfti Snædísi Hjartardóttur og hennar kjark og þor til að kenna ríkinu þá lexíu. Við skulum vona að það dugi til,“ segir verjandi Snædísar, Páll Rúnar M. Kristjánsson í samtali við mbl.is.

Samkvæmt dómnum fellur málskostnaður milli aðila niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði.

Fyrri fréttir mbl.is:

Snædís Rán fær flýtimeðferð

„Fylgja þessu stress og vonbrigði“

„Þetta er náttúrulega drullufúlt“

mbl.is