Vill samstöðu með Grikklandi

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kafteinn Pírata, Birgitta Jónsdóttir, lýsti yfir stuðning við grísku þjóðina á Alþingi í dag og hvatti hana til þess að fylgja hjarta sínu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð er í Grikklandi á sunnudaginn. Þar verða greidd atkvæði um það hvort fallast eigi á skilyrði alþjóðlegra lánadrottna landsins fyrir frekari lánafyrirgreiðslum.

„Í ljósi þess að Evrópusambandið hefur verið að hvetja grísku þjóðina til þess að fara gegn vilja forsætisráðherra landsins þá langar mig til að lýsa yfir stuðningi við grísku þjóðina og hvetja þau til þess að fylgja hjarta sínu í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem mun eiga sér stað fljótlega,“ sagði Birgitta. Hvatti hún þingmenn til þess að styðja Grikki, sem alþjóðlegir lánadrottnar landsins hefðu farið mjög illa með, sem og aðrar þjóðir í sömu stöðu.

Birgitta minnti á að staðan í Grikklandi sýndi hvernig hefði getað farið hér á landi. Íslendingum hefði hins vegar tekist að vinna úr erfiðum tímum og væru nú að ná sér á strik. Lánadrottnar Grikklands ætluðu sér að ætla að leysa úr skuldamálum landsins með því að setja enn meiri skuldir á herðar grísku þjóðarinnar sem væri fjarstæðukennd leið til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert