Mestu breytingarnar frá upphafi bílsins

Mercedes F 015 hugmyndabíllinn.
Mercedes F 015 hugmyndabíllinn.

Bíll án ökumanns. Hugmyndin virðist eins og úr smiðju vísindaskáldsagnahöfunda, en sjálfkeyrandi bílar eru nær því að líta dagsins ljós en margan grunar. Dr. Ralf Herrtwich stýrir þróun þeirra hjá Mercedes Benz og ræddi við blaðamann mbl.is í tilefni af Haustráðstefnu Advania, þar sem hann mun tala.

Sjálfkeyrandi bílar, bílar sem ekki þurfa ökumann, hafa verið mikið í umræðunni undanfarið. Mercedes Benz eru framarlega í þeirri þróun, þó svo að athyglin hafi að miklu leyti verið á Google, allt frá því þeir birtu myndband þar sem fólki var ekið um af ökumannslausum bíl.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/CKqJccK_EkM" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>


Dr. Ralf Herrtwich fer fyrir þróun sjálfkeyrandi bíla hjá Daimler, móðurfélagi Mercedes-Benz. Hann talar á Haustráðstefnu Advania 4. september. „Árið 2013 bjó teymið mitt til S-Class Benz sem keyrði sömu 100 kílómetra leið og Bertha Benz gerði árið 1888,“ segir Herrtwich. „Sú ökuferð var fyrsta langa ökuferðin í sögu mannsins, en bíllinn okkar keyrði þessa leið algjörlega sjálfur, nokkuð sem kom mörgum í bílaiðnaðnum mjög á óvart.“

Herrtwich er tölvunarfræðingur frá Tækniháskólanum í Berlín, TU Berlin, og hefur komið víða við á starfsævinni, meðal annars hjá IBM, áður en hann gekk til liðs við Daimler árið 1998.

Sjálfkeyrandi bílar í 30 ár

Hvernig og hvenær kviknaði áhugi þinn á sjálfkeyrandi bílum?

„Mercedes byrjaði að vinna að sjálfkeyrandi bílum fyrir nærri því 30 árum, sem hluti af evrópsku rannsóknarverkefni sem kallast „Prometheus“. Verkefnið gat af sér bíl sem fékk nafnið VaMP, og keyrði sjálfur 1.000 kílómetra á þýskri hraðbraut. Þegar ég horfi til baka, þá var þetta verkefni langt á undan sinni samtíð.“

Þegar Herrtwich tók að sér núverandi starf hjá Daimler, sem felur meðal annars í þér þróun búnaðar sem aðstoðar ökumanninn við akstur, þá horfði hann fyrst til þess öryggisbúnaðar sem var til staðar með það fyrir augunum að bæta hann.

„Ég velti strax fyrir mér hvers vegna við gætum ekki látið bílinn vera við stjórnvölin öllum stundum, en ekki bara í neyðartilvikum eins og þá var. Fljótlega öðluðumst við góðan skilning á hvaða búnaður var til staðar og hvaða púsl vantaði til að láta bíla keyra sig sjálfa,“ segir hann. „Við höfum verið að vinna að því síðan að finna þetta púsl - og það með undraverðum árangri.“

Sjálfkeyrandi bílar hafa vakið mikla - og ef til vill verðskuldaða - athygli undanfarið eitt og hálft ár. Hvar stendur tæknin í þessum efnum? Eru algjörlega sjálfkeyrandi bílar, sem þurfa ekki ökumann, raunhæfur möguleiki í náinni eða ekki svo náinni framtíð?

„Það er rétt, það hefur verið mikið „hype“ í kringum þessa bíla. Það sem skín hins vegar í gegn í þessu er að við erum á þeim stað að tæknileg geta of framþróun fer saman við raunverulegar þarfir notandans. Umferðarþungi hefur breyst mikið undanfarna áratugi, þannig að flest okkar lendum daglega í umferð sem er á engan hátt ánægjuleg eða skemmtileg. Við þessar aðstæður virðast bílar sem keyra sig sjálfir fullkomin lausn,“ segir Herrtwich.

Hann segir að í fjöldamörg ár hafi tæknin sem væri nauðsynleg til að gera sjálfkeyrandi bíla að raunveruleika virst 20 ár í burtu og aldrei færast nær.

„Undanfarin tvö ár hafa bílar okkar hins vegar verið þannig búnir að þeir geta keyrt sjálfa sig gegnum umferðarteppu, þó svo að ökumaðurinn þurfi alltaf að vera á tánum og tilbúinn að grípa inn í. Við ætlum að draga úr þörfinni á að bílstjórinn fylgist með og fjölga þeim aðstæðum þar sem bíllinn getur keyrt sig sjálfur.

Á næstu árum ætti hraðbrautaakstur og búnaður til að leggja í stæði að vera innan seilingar, að minnsta kosti við góð veðurskilyrði. En sjálfkeyrandi bíla sem geta keyrt alla vegi við hvaða aðstæður sem er? Hvað get ég sagt? 20 ár?,“ segir hann. „Hvað sem því líður þá erum við að gert allt sem í okkar valdi stendur til að það verði fyrr en síðar.“

Ný vídd í samgöngum

Hvaða áhrif heldurðu að það myndi hafa á bæði bílaiðnaðinn og hvernig fólk hugsar um bíla? Ýmsir sérfræðingar hafa spáð því að bílaeign myndi dragast verulega saman þar sem fólk gæti deilt bílum með mun auðveldari hætti en nú er.

„Þessi nýja vídd í samgöngumöguleikum helst að sjálfsögðu í hendur við tæknilegar og samfélagslegar breytingar. Hluti af þessu er möguleikinn sem við bjóðum fólki til að deila bílum gegnum car2go. Sumir segja að einkabílaeign muni algjörlega leggjast af þegar fólk getur deilt bílum hvert með öðru með auðveldari hætti,“ segir Herrtwich.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/CqSDWoAhvLU" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

Hann er algjörlega ósammála þessu. „Ég líki þessu stundum við það hvernig fólk sér heimilin sín. Sumir vilja eiga húsnæði, aðrir vilja leigja. Valið byggir til dæmis á aldri, hvar þú ert í tilverunni og hversu mikla peninga þú hefur milli handanna. Samband þitt við bílinn þinn gæti orðið mun persónulegra en það er í dag, þannig að bíllinn þinn gæti í raun orðið dagstofa á hjólum. Þannig gæti staða fólks í samfélaginu og smekkur fólks sést betur á bílunum þeirra en það gerir í dag. Svo væri líka hægt að innrétta bílana eftir höfði eigandans.“

Hversu langt er Daimler á veg komið með að búa til sjálfkeyrandi bíl?

„Í S-Class bílunum okkar er búnaður sem sjálfkrafa aðstoðar ökumanninn við ýmsar aðstæður. Þetta á til dæmis við þegar um lengri keyrslu er að ræða, þar sem bíllinn tryggir að þú ferð ekki of nálægt bílnum fyrir framan þig eða út af akreininni sem þú ert á fyrir slysni. Í þungri og hægri umferð, þar sem þú ert endalaust að stoppa og taka af stað getur ökumaðurinn sleppt stýrinu og látið bílinn sjá um að keyra fyrir sig,“ segir Herrtwich. Hann segir sama búnað í boði í fleiri bílum Benz, til dæmis í C og E-Class, en einnig í CLS, GLE og GLC-Class bílum, en í þeim er ekki búnaður sem auðveldar ökumanni að sjá að nóttu til

„Við köllum þetta „Intelligent Drive“, nafn sem mér finnst eiga mjög vel við,“ segir Herrtwich. „Intelligent Drive“ mætti þýða sem snjallakstursbúnað. „Við munum eins og gefur að skilja auka virkni þessa búnaðar á komandi árum - sérstaklega í næsta S-Class,“ segir hann. „Það er of snemmt að gefa upp smáatriði, en fylgist endilega með þróuninni,“ segir Herrtwich. Áhugamenn um sjálfkeyrandi bíla munu án nokkurs vafa gera það.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/P1tfOeChenQ" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

Lagalegar og samfélagslegar áskoranir ekki síður en tæknilegar

Hvernig mun Daimler nálgast þær áskoranir sem bíða sjálfkeyrandi bíla og hver er þín framtíðarsýn fyrir þá?

„Við sjáum auðvitað að það eru fleiri spurningar sem þarf að svara en bara spurningar sem eru tæknilegs eðlis. Við erum núna að vinna í að skapa traust milli manns og vélar. Þar skipta samskipti lykilmáli. Tilraunabíllinn okkar, F 015 sýndi hvernig bíll getur átt í samskiptum við umhverfi sitt og hvernig sjálfvirkni bíla gæti gjörbreytt hugmyndinni um bíla.

Bílaframleiðendur þurfa ekki lengur að einbeita sér að því að skapa „vinnuumhverfi“ fyrir ökumanninn, heldur getur þú haft nokkuð frjálsar hendur þegar þú hannar innviði bílsins, því fólk mun án nokkurs vafa vilja geta gert eitthvað annað en að horfa bara út um gluggann meðan þú ert á ferðinni og þarft ekki að einbeita þér að akstrinum,“ segir hann.

Hverjir heldurðu að séu helstu kostir og ókostir sjálfkeyrandi bíla fyrir ökumenn, bílaiðnaðinn og samfélagið í heild sinni?

„Frumforsenda fyrir því að sjálfkeyrandi bílar komist á göturnar er breiður stuðningur. Umferð og samgöngur eru viðfangsefni allra í samfélaginu á einn eða annan hátt. Hvernig sem tæknin þróast þá teljum ivð sjálfkeyrandi bíla aðeins ná árangri ef það er stuðningur við þá í samfélaginu og ef regluverkið er í stakk búið til að taka við þeim. Hafandi sagt það, þá teljum við framtíð sjálfkeyrandi bíla bjarta.“

Hann segir að til langs tíma muni þeir gefa okkur nokkuð sem er mjög dýrmætt: gæðastundir meðan við erum í akstri og persónulegt rými. „F 015 sýnir þetta mjög vel held ég. Miðað við þau gífurlegu viðbrögð sem við höfum fengið við honum þá virðist ég ekki vera sá eini.“

Prófaðir í Kaliforníu og Nevada

Frumgerðir sjálfkeyrandi bíla hafa ekki verið prófaðar við erfið veðurskilyrði, til dæmis í mikilli rigningu eða snjókomu. Getur veður verið stórt ljón í vegi sjálfkeyrandi bíla?

„Ég segi alltaf að það er engin tilviljun að sjálfkeyrandi bílar eru alltaf prófaðir í Kaliforníu og Nevada. Veðurskilyrði eins og mikil rigning eða snjókona eru enn töluverð áskorun. Það á við í báðum tilvikunum, um sjálfkeyrandi bíla og bíla sem mannfólk stýrir,“ segir hann.

„Rétt eins og ökumenn eiga í erfiðleikum með að greina merkingar á götunni eða átta okkur á fjarlægðinni að næsta bíl við þessar aðstæður, þá myndu þeir skynjararnir líka lenda í vandræðum. Við erum að vinna að því með birgjum okkar að yfirstíga þessar hindranir. Skynjarar verða sífellt fullkomnari. Það gæti verið raunhæft að gera ráð fyrir sjálfkeyrandi möguleikum við góð veðurskilyrði á næstu árum. Hins vegar má benda á að menn hafa lagt sig fram um að þróa sjálfvirka snjóplóga í Bandaríkjunum,“ segir Herrtwich.

Færri slys með ökumannslausum bílum?

Í ljósi þess að mannleg mistök eru ástæða næstum allra umferðarslysa, heldurðu að ef sjálfkeyrandi bílar verða á einhverjum tímapunkti betri „ökumenn“ en mannfólk, að bílar sem ekki eru sjálfkeyrandi verði hreinlega bannaðir?

„Einn af okkar hvötum við þróun á sjálfvirkum búnaði er auðvitað að fækka slysum. Það eru hins vegar stórar áskoranir á næstunni í þeirri vegferð. Hingað til höfum við getað látið sjálfstýringu grípa inn í þegar ökumaðurinn gerir mistök. Næstu skref eru ekki að koma í veg fyrir mistök ökumannsins, heldur taka það upp eftir honum sem hann gerir rétt. Kerfið þarf að geta hegðað sér eins og hinn besti ökumaður við allar aðstæður. Að öðrum kosti gæti það valdið óhöppum og slysum,“ segir Herrtwich.

Hann segir að á þessum tímapunkti séu ekki áform um að fjarlægja stýrið úr sjálfkeyrandi bílum. „Möguleikinn á að keyra sjálfur verður til staðar þar sem við teljum að það geti verið gaman að keyra - það er bara ekki gaman að keyra við allar aðstæður.“

Þróun, ekki bylting

Heldurðu að skrefið frá hefðbundnum bílum yfir í sjálfkeyrandi bíla verði löng þróun eða bylting?

„Við lítum á þetta sem þróun, ekki stökkbreytingu. Daimler-Benz sýndi fram á á tíunda áratugnum að sjálfkeyrandi bílar gætu verið raunhæfur kostur. 2013 tókum við svo stórt og brautryðjandi skref þegar við vorum fyrsti bílaframleiðandinn til að nota skynjara til að keyra 100 kílómetra leið um sveitavegi og í borgum á algjörlega sjálfkeyrandi bíl,“ segir Herrtwich

„Eins og ég benti á áðan þá er fullt af búnaði í bílunum okkar í dag sem ég myndi sárlega sakna á minni 15 kílómetra leið í vinnuna ef ég væri án þeirra. Bíllinn keyrir næstum næstum því sjálfur gegnum þunga og hæga umferð og sparar mér að gera sömu tilbreytingarlausu hlutina aftur og aftur til þess eins að keyra örfáa metra áfram. Hliðrunin yfir í meiri og meiri sjálfvirkni er hafin og við erum akkúrat núna að upplifa mestu breytingar sem bílaiðnaðurinn hefur gengið í gegnum - og ég er mjög spenntur yfir því.

Að lokum, er útlit fyrir að ungt fólk með meðaltekjur komi til með að geta notað sjálfkeyrandi bíla, og jafnvel að þau börn sem fæðast á árinu 2016 muni aldrei taka bílpróf?

„Allir sem vilja geta keyrt við tilteknar aðstæður munu þurfa að taka bílpróf. Það verða til staðar algjörlega sjálfkeyrandi bílar þar sem ekki verður gerð krafa um að fólk hafi bílpróf. Búnaðurinn sem er nauðsynlegur til að gera bílum kleift að keyra sjálfum er ekkert sérstaklega flókinn. Skynjarar á borð við myndavélar og ratsjár eru nú þegar á markaðnum og tölvur eru alltaf að verða öflugri. Það þarf ekki að kosta nema 2.000 til 3.000 evrur, um 300 til 450 þúsund krónur, að útbúa bíla þannig að þeir verði að nokkru leyti sjálfvirkir. Við teljum þetta ekki hátt verð - sumt fólk kaupir hljómflutningstæki í bílinn sinn fyrir sömu fjárhæðir í dag,“ segir Herrtwich.

Ralf Herrtwich.
Ralf Herrtwich. Daimler
Hugmyndabíll Mercedes Benz, F 015 á blaðamannafundi í Las Vegas. …
Hugmyndabíll Mercedes Benz, F 015 á blaðamannafundi í Las Vegas. Bíllinn á að geta keyrt sjálfur, og hægt er að snúa sætunum þannig að farþegarnir geta haldið fund í bílnum. AFP
Sjálfkeyrandi bíll Google.
Sjálfkeyrandi bíll Google. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert