Vilja tryggja að staðið verði við yfirlýsingar ráðherra

Fiskistofa hefur frá byrjun árs 2006 haft aðsetur að Dalshrauni …
Fiskistofa hefur frá byrjun árs 2006 haft aðsetur að Dalshrauni í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmenn Fiskistofu mótmæla harðlega breytingum sem nýlega voru gerðar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Gagnrýni starfsmanna beinist fyrst og fremst að því ákvæði laganna að ráðherra hafi óhefta heimild til flutnings á aðsetri ríkisstofnana.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samþykkt var á almennum fundi starfsmanna Fiskistofu í morgun.

Sá varnagli var settur í lögin á óhefta heimild ráðherra til flutnings stofnana, að hyggist viðkomandi ráðherra nýta sér valdheimildir sínar, þá verður hann að gefa Alþingi skýrslu áður en ákvörðun þar um verður tekin.

 „Sá böggull fylgir þó skammrifi í umræddri lagasmíð að „skýrsluákvæðið“ tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2015. Það þýðir að ráðherra kann að álykta að hann geti farið óhindrað fram í flutningi Fiskistofu til Akureyrar, innan þess tíma, taki hann ákvörðun þar um,“ segir í yfirlýsingunni.

 Þá segir í yfirlýsingunni:

„Ráðherra hefur með bréfi til starfsmanna Fiskistofu  13. maí sl. sagt:

„Aðrir núverandi starfsmenn stofnunarinnar [aðrir en fiskistofustjóri] sem starfa á höfuðborgarsvæðinu hafa val um starfsstöð milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins.“

 Vandséð er hvernig starfsemi stofnunarinnar verður háttað taki ráðherra ákvörðun um flutning hennar til Akureyrar, meðan flest allir núverandi starfsmenn starfa áfram á höfuðborgarsvæðinu.

 Starfsmenn Fiskistofu skora á ráðherra að hverfa alfarið frá áformum sínum um fyrirhugaðan flutning Fiskistofu. Það er mat starfsmanna Fiskistofu að ráðherra verði, hyggist hann nú taka ákvörðun um flutning Fiskistofu, að ígrunda vandlega ábendingar umboðsmanns Alþingis í áliti hans nr. 8181/2014 frá 22. apríl sl.

 Sérstaklega skal bent á eftirfarandi á bls. 16 í áliti umboðsmanns Alþingis:

„Á öllum stjórnvöldum og starfsmönnum þeirra hvílir sú skylda að leitast við að starfa eftir lögum og tryggja hagkvæma og eðlilega meðferð þeirra opinberu hagsmuna sem þeim hefur verið falið að vinna að. (Alþt. 2010-2011, 139. löggj.þ., þskj. 1191.) Það er rétt að leggja áherslu á að hér er vísað til þess þáttar í starfi ráðherra sem felur í sér fyrirsvar og meðferð stjórnsýsluvalds en lýtur ekki að hinu pólitíska hlutverki ráðherra.“

Einnig skal bent á eftirfarandi á bls. 18-19 í áliti umboðsmanns Alþingis:

„Ég hef áður í störfum mínum sem umboðsmaður Alþingis hvatt til þess að stjórnvöld gæti að því að haga undirbúningi og framkvæmd á verkefnum stjórnsýslunnar þannig að þess sé gætt að skapa  nauðsynlegt traust á verkum og úrlausnum mála innan hennar.  Mikilvægur þáttur í því er að vanda til þessarar verkefna og gæta þess að úrlausn máls sé í samræmi við gildandi reglur um form og efni. Ýmis ákvæði nýrra laga um Stjórnarráð Íslands  sem sett voru á árinu 2011 voru ætluð sem liður í því að bæta og styrkja stjórnsýslu ráðuneytanna. Áðurnefnt ákvæði 20. gr. laganna um skyldu ráðherra til að leita álits ráðuneytis var liður í því.“

Þá er á bls. 11 í áliti umboðsmanns Alþingis er vakin athygli á dómi hæstaréttar Íslands  frá 18. desember 1998, en þar segir:

„Ákvörðun um heimili stofnunar og varnarþing er meðal grundvallaratriða í skipulagi hennar. Ljóst er, að miklu skiptir fyrir starfrækslu stofnunar, hvar henni er fyrir komið strax í upphafi, og ekki skipta minna máli breytingar á aðsetri hennar. Koma í báðum tilvikum við sögu kostnaður við reksturinn, tekjumöguleikar, starfsmannamálefni og hagsmunir þeirra, sem sækja þurfa þjónustu til stofnunar eða hún á viðskipti við, auk fleiri atriða. Á síðari árum hafa þó ýmis þessara atriða breyst vegna bættra samgangna og samskiptatækni. Við flutning stofnunar koma jafnframt til sögu kostnaður við flutninginn sjálfan og sú röskun, sem óhjákvæmilega verður á starfrækslu stofnunarinnar við hann, sérstaklega á málefnum starfsmanna hennar.“

Það er mat starfsmanna Fiskistofu að allt ofangreint þurfi ráðherra að íhuga vel. Lagheimildin er aðeins einn þáttur. Virða þarf aðrar reglur stjórnsýslunnar.

Starfsmenn Fiskistofu áforma að mynda starfshóp til að standa vörð um loforð ráðherra og vandaða stjórnsýsluhætti komi til flutnings höfuðstöðva Fiskistofu. Það er gert til að tryggja að staðið verði við yfirlýsingar ráðherra, varðandi réttmætar væntingar núverandi starfsmanna Fiskistofu, sem fram koma í bréfi hans 13. maí sl. Starfsmenn Fiskistofu ætla jafnframt með öllum ráðum að koma í veg fyrir að farið verði gegn fyrirheitum ráðherra, með þrýstingi eða sniðgöngu, um að núverandi starfsmenn stofnunarinnar hafi val um starfsstöð.“

mbl.is