Lengir bið íslenskra kvenna

Iðnaðarsílikon var notað í brjóstafyllingar.
Iðnaðarsílikon var notað í brjóstafyllingar. AFP

Hópmálsókn erlendra kvenna í PIP-málinu svokallaða tapaðist á millidómstigi í Frakklandi í síðustu viku. Aðalmeðferð fer fram í máli 204 íslenskra kvenna í frönskum undirrétti þann 24. júlí. Lögmaður kvennanna segir niðurstöðu síðustu viku ekki gera út um mál þeirra, þó hún gæti lengt bið eftir endanlegri niðurstöðu.

Frétt mbl.is: PIP-púðamál íslenskra kvenna tekið fyrir í sumar

„Þetta er fyrsta hópmálsóknin sem íslenskar konur eru ekki aðilar að,“ segir lögmaðurinn Saga Ýrr Jónsdóttir. Hún bendir á að í Frakklandi séu þrjú dómstig. „Mál þeirra vannst í undirrétti og TÜV Rheinland voru látnir greiða þeim konum innborgun. Nú tapaðist málið á millidómstigi, en það fer áfram til Cour de cassation, sem er í raun Hæstiréttur Frakklands,“ segir Saga.

Þrjú dómstig eru í Frakklandi.
Þrjú dómstig eru í Frakklandi. AFP

Iðnaðarsílíkon í púðunum

TÜV Rheinland var eftirlitsaðili með framleiðslu PIP-púðanna í Frakklandi. Ríflega fjögur ár eru síðan málið komst í hámæli þegar í ljós kom að franska fyrirtækið Poly Implant Prothése hafði notað svokallað iðnaðarsílikon í brjóstafyllingar sem það framleiddi. Um 440 íslenskar konur fengu ígræddar PIP-brjóstafyllingar. Margir púðanna reyndust leka og fundust lekar hjá konum víða um heim meðal ann­ars und­ir hönd­um, í hálsi, höfði og jafn­vel lung­um.

Saga segir niðurstöðu síðustu viku ekki eiga að hafa áhrif á gang síns máls utan þess að hugsanlega fái íslensku konurnar ekki sömu innborgun og þeim erlendu var dæmd í undirrétti. „Eflaust hljómar þetta undarlega miðað við íslenskt réttarkerfi þar sem undirréttur fylgir jafnan fordæmi æðri dómstóls. Kerfið þarna úti er hins vegar öðruvísi og þetta mun því í raun ekki breyta neinu utan þess að lengja biðtímann fyrir íslenskar konur, því þá þarf þetta mál væntanlega að fara alla leið til æðsta dómstólsins.“

Hún segir að vissulega hefði verið einfaldara hefði mál erlendu kvennanna unnist á millidómstigi og þá eðlilega meiri líkur á að þær íslensku hefðu unnið í undirrétti og fengið innborgun. „Þá hefði verið hægt að meta afleiðingar málsins fyrir konurnar meðan verið væri að fá lokaniðurstöðu frá æðsta dómstiginu,“ segir Saga. Hún bendir á að sérstakt læknaráð meti afleiðingarnar fyrir hverja konu og betra hefði verið að það ferli væri í gangi meðan beðið væri eftir niðurstöðu æðsta dómstólsins.

Bygging Cour de cassation í París.
Bygging Cour de cassation í París. Ljósmynd/Wikipedia

Erfitt að geta ekki upplýst að fullu

Saga kveðst hafa fengið 127 blaðsíðna dóm á franskri tungu í hendurnar auk stuttrar skýringar, en segir erfitt að geta ekki upplýst skjólstæðinga sína að öllu leyti um forsendur málsins. „Eins leiðinlegt og það er þá fáum við lögmennirnir í þessum hópmálsóknum gjarnan sendar trúnaðarupplýsingar, en ef við myndum láta þær berast út í fjölmiðlum fengi TÜV Rheinland auðvitað einnig aðgang að þeim,“ útskýrir Saga.

Hún er hins vegar full vonar um farsæla lokaniðurstöðu í málinu og bendir á að niðurstaða á millidómstigi hafi ekkert að segja um niðurstöðu æðsta dómstigs. „Þrátt fyrir að mál síðustu viku hefði unnist þá geri ég ekki ráð fyrir öðru en að TÜV Rheinland hefði látið reyna á Cour de cassation. Þetta millidómstig segir ekkert til um hver niðurstaðan getur orðið þar. Það er því helst bara leiðinlegt hvernig þetta mál fór, en það hefði hins vegar ekki verið endanleg ákvörðun þó málið hefði unnist á millidómstigi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert