Samkeppnin aldrei verið eins grimm

Brautskráðum nemendum úr háskólum landsins hefur fjölgað mikið undanfarin ár.
Brautskráðum nemendum úr háskólum landsins hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Kristinn Ingvarsson

Bil atvinnutekna einstaklinga með grunnmenntun og háskólamenntun hefur farið minnkandi hér á landi undanfarin ár. Árið 2013 voru þeir sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun með 86,3% af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra. Þetta er hærra hlutfall en í nokkru öðru Evrópuríki, að því er fram kemur í nýlegri skýrslu Hagstofu Íslands.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins, segir þetta ákveðið umhugsunarefni, ekki aðeins fyrir atvinnulífið, heldur einnig fyrir stjórnvöld sem og háskólana

„Fyrsta mat okkar er að þetta eru ekki skilaboð um að þú eigir að rjúka beint í háskólanám,” segir hún í samtali við mbl.is. „Við þurfum að átta okkur á því hvert við erum að fara. Munurinn á þessu bili er langminnstur hér á landi. Sumir vilja hafa þetta svona, vilja ná jöfnuði, en ég held að þetta sé ekki jákvæð þróun þegar litið er til samkeppnishæfni okkar við aðrar þjóðir.“

Ísland verði síðri valkostur

Hún segir að þegar litið er til Norðurlandaþjóðanna, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, þá séum við Íslendingar með langflesta nemendur í háskólanámi erlendis, hlutfallslega séð. „Með þessari þróun erum við að verða síðri valkostur fyrir þessa nemendur að koma heim.

Við höfum, þrátt fyrir að það hafi aðeins breyst eftir hrunið, yfirleitt verið það land í Evrópu sem hefur fengið fólkið okkar heim eftir háskólanám erlendis. Það hefur verið alveg frábært,“ nefnir hún.

„Ég held hins vegar að það verði nú erfiðara, þegar litið er til þessarar þróunar. Við erum, með aukinni alþjóðavæðingu, í grimmari samkeppni um fólk heldur en nokkurn tímann fyrr. Þannig að þetta er umhugsunarefni fyrir alla, atvinnulífið, stjórnvöld og samfélagið.“ Hún segir að fyllsta tilefni sé til að „taka samtalið“ um hvert skuli stefna í þessum málum.

Hún áréttar jafnframt að Íslandi eigi í harðri samkeppni við aðrar þjóðir. „Þó svo að við erum eyland, þá erum við ekki eyland í þessum skilningi.“

Bilið hefur minnkað

Eins og áður sagði voru árið 2013 þeir sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun á Íslandi með 86,3% af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra. Til samanburðar var hlutfallið 80,3% í Svíþjóð, 77% í Noregi og 73,6% í Hollandi.

Mestur munur á ráðstöfunartekjum milli menntunarhópa var í Rúmeníu en þeir sem eingöngu hafa lokið grunnmenntun í Rúmeníu voru með 33,1% af tekjum háskólamenntaðra. Næstu lönd voru Búlgaría, Serbía og Litháen með 39,3%, 40,5% og 47,0%.

Árið 2014 voru ráðstöfunartekjur fólks með grunnmenntun á Íslandi 87,7% af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra. Hlutfallið breyttist lítið milli áranna 2004 og 2010, þegar það var á bilinu 78% til 80%, en síðan hefur dregið saman með hópunum.

Sömu sögu er að segja af ráðstöfunartekjum þeirra sem hafa lokið framhaldsmenntun sem hlutfall af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra. Fram til ársins 2008 var hlutfallið frekar stöðugt frá 82% til 85% en eftir það hefur munurinn farið minnkandi og árið 2014 var fólk með framhaldsmenntun með 91,6% af tekjum háskólamenntaðra.

„Kemur ekki af sjálfu sér“

Samtök atvinnulífsins vinna nú að því að rýna þessar tölur betur og segist Þorgerður Katrín vonast til þess að hægt sé að lesa meira út úr þeim með haustinu. Auk þess vinna samtökin að því að kortleggja raunverulega þörf atvinnulífsins fyrir menntað fólk.

„Þetta kemur ekki af sjálfu sér. Þetta er afleiðing af ákveðinni stefnu, sem hefur mótast af bæði stjórnvöldum og síðan kjarasamningum. En þetta er staðan og það er erfitt að þræta fyrir tölurnar. Nú þurfum við bara að spyrja: Er þetta viðunandi? Hvaða áhrif mun þetta hafa til lengri tíma á það hvort við fáum unga fólkið aftur heim að loknu háskólanámi?

Það er eins gott að við gerum okkur strax grein fyrir þessu. Við erum að rýna þessar tölur betur og getum vonandi lesið eitthvað út úr þeim með haustinu.“

Frétt mbl.is: Menntun hefur minnstu áhrifin á Íslandi

Skýrsla Hagstofu Íslands

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins.
Á ár­un­um 2004 til 2014 fóru tekj­ur fólks með fram­halds- …
Á ár­un­um 2004 til 2014 fóru tekj­ur fólks með fram­halds- eða starfs­mennt­un úr 84,5% af tekj­um há­skóla­menntaðra í 91,6%. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert