Fjórir bílar á leið á suðurheimskautið

Starfsmenn Arctic trucks ásamt einstaklingum frá finnsku og þýsku pólarstofnununum …
Starfsmenn Arctic trucks ásamt einstaklingum frá finnsku og þýsku pólarstofnununum eftir þjálfunina á Vatnajökli. Kristinn Ingvarsson

Síðustu vikur hafa 15 einstaklingar frá erlendum heimskautastofnunum komið hingað til lands á vegum jeppabreytingafyrirtækisins Arctic Trucks til að læra akstur í snjó, almennt viðhald bíla í heimskautaaðstæðum og akstur á jöklum. Gestirnir koma frá Kína, Þýskalandi og Finnlandi, en heimskautastofnanir fyrri tveggja landanna eru að kaupa nýja sexhjóla jeppa frá fyrirtækinu sem á að flytja á Suðurskautslandið í haust.

Eðvarð Þór Williamsson, framkvæmdastjóri Arctic Trucks, segir í samtali við mbl.is að kínverska heimskautastofnunin hafi fyrir ári síðan gert samning við fyrirtækið um kaup á tveimur sexhjóla bílum. Nokkru seinna hafi þýska heimskautastofnunin einnig pantað tvo bíla. Þetta er framhald á samstarfi við fleiri heimskautastofnanir, en Arctic Trucks hefur notað sexhjóla bíla á Suðurskautslandinu frá árinu 2007 og þykja þeir sparneytnir og komast hratt yfir miðað við annað sem er í boði í þessum aðstæðum.

Sala á þessum heimskautabílum skilar fyrirtækinu tugum milljóna í veltu á ári, en Eðvarð segir að stofnanirnar sendi einnig starfsmenn sína árlega í þjálfun hingað til lands, enda séu aðstæður hér með ólíkindum líkar því sem gerist á Suðurskautinu. Var t.a.m. farið með hópana í ár upp á Vatnajökul þar sem mönnum voru kennd réttu handtökin í jöklaakstri.

Auk breytinga og sölu til heimskautastofnana er Arctic Trucks með eigin útgerð á Suðurskautslandinu. Allt í allt er fyrirtækið með sex bíla þar, en þeir eru leigðir með mannskap fyrir leiðangra sem vilja fá stuðning á ferð sinni um hásléttur heimsálfunnar.

Á þessu ári verður Arctic Trucks 25 ára, en fyrsti Suðurskautaleiðangur fyrirtækisins var farinn árið 1997. Þá var það sænska heimskautastofnunin sem fékk fyrirtækið til að aðstoða sig með að koma rannsóknarbúnaði upp á hásléttuna. Síðan þá hafa 20 bílar frá fyrirtækinu keyrt um heimsálfuna og fjórir bætast nú við sem seldir eru til þýsku og kínversku heimskautastofnananna. Samtals hafa bílar fyrirtækisins verið keyrðir yfir 220 þúsund kílómetra á þessum árum samkvæmt Eðvarð.

Þó sexhjóla bílarnir hafi hingað til mest verið nýttir í akstur á Suðurskautslandinu, þá voru þeir í fyrra viðurkenndir af Umferðastofu hér á landi og geta fengið götuskráningu. Segir Eðvarð að bílarnir geti verið heppilegir þar sem þeir geti borið hærri heildarþyngd en venjulegir bílar og nú þegar hafi þrír slíkir bílar verið seldir hér á landi.

Eðvarð Þór Williamsson, framkvæmdastjóri Arctic trucks.
Eðvarð Þór Williamsson, framkvæmdastjóri Arctic trucks. Kristinn Ingvarsson
Sexhjóla trukkarnir eru breyttir Toyota hilux, en þeir hafa fengið …
Sexhjóla trukkarnir eru breyttir Toyota hilux, en þeir hafa fengið götuskoðun hér á landi. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert