Menntun sé metin til launa

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn

„Það er mikilvægt að menntun sé metin til launa,” segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Það sé áhyggjuefni að bilið á milli ráðstöfunartekna einstaklinga með grunnmenntun annars vegar og háskólamenntun hins vegar hafi farið minnkandi. 

Eins og fram kemur í nýrri skýrslu Hagstofu Íslands voru árið 2013 þeir sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun hér á landi með 86,3% af ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra. Það er hærra hlutfall en í nokkru öðru Evrópuríki. Jón Atli segir að munurinn á Íslandi og öðrum ríkjum sé sláandi.
 
„Eins og þetta horfir við mér, þá er áhyggjuefni að sjá hvernig þessi þróun hefur verið á undanförnum árum,“ segir hann og bætir við að hann hafi ekki neina einhlíta skýringu á þessum litla mun á ráðstöfunartekjum eftir menntun.

Mikilvægt að ganga menntaveginn

„Það er gríðarlega mikil fjárfesting fyrir hvern og einn að afla sér háskólamenntunar. Og þess vegna á fólk að geta vænst ávinnings af slíku. Háskólamenntun veitir aðgang að fjölbreyttari störfum og síðan má ekki heldur gleyma því að langt nám hefur áhrif á ævitekjurnar enda er fólk að jafnaði launalaust á meðan það menntar sig. Margir taka líka námslán og greiðslubyrði getur verið þung.

En þetta er áhyggjuefni. Það er mikilvægt að menntun sé metin til tekna að jafnaði.“ 
 
Hann bendir á að við eigum í alþjóðlegri samkeppni um vel menntað fólk og þekkingu. Mjög mikilvægt sé að fólk gangi menntaveginn og tölur Hagstofunnar dragi með engu móti úr vægi háskólamenntunar í heild sinni. Hún mætti hins vegar vera betur metin.
 
Jón Atli nefnir einnig að mjög fjölbreyttur hópur útskrifist úr háskólanum, en í tölum Hagstofunnar sé tekið miðgildi. Erfitt sé að skoða hvern hóp fyrir sig. Ekki sé hins vegar vafi um að þeir sem útskrifast úr háskólanum standi mjög vel að vígi.

„Við gerum kannanir á hverju ári hjá útskrifuðum nemendum. Nýjustu tölur eru um þá sem útskrifuðust árið 2011, en í þeim hópi var 4,4% atvinnuleysi árið 2013, sem var þá töluvert undir meðalatvinnuleysi. Einnig kom í ljós að það tók fólk að meðaltali 2,7 mánuði að fá vinnu eftir brautskráningu,“ útskýrir hann.

Fréttir mbl.is:

Samkeppnin aldrei verið eins grimm

Mennt­un hef­ur minnstu áhrif­in á Íslandi

Skýrsla Hag­stofu Íslands

Á ár­un­um 2004 til 2014 fóru tekj­ur fólks með fram­halds- …
Á ár­un­um 2004 til 2014 fóru tekj­ur fólks með fram­halds- eða starfs­mennt­un úr 84,5% af tekjum há­skóla­menntaðra í 91,6%. mbl.is/Ernir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert