Telja sárin lagast af sjálfu sér

Dæmi um utanvegaakstur.
Dæmi um utanvegaakstur. mbl.is/Árni Sæberg

„Það þarf að stórauka fjármagn og fræðslu í þessum efnum. Það er það eina sem skilar árangri,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, í samtali við mbl.is varðandi eftirlit með utanvegaakstri á hálendinu og víðar sem verið hefur viðvarandi vandamál hér á landi og ekki síst samhliða vaxanda straumi ferðamanna til landsins.

Guðmundur bendir á að landverðir séu starfandi á friðlýstum svæðum á landinu og sinni meðal annars slíku eftirliti að vissu marki. Ennfremur séu ýmis önnur svæði með starfsfólk einkum yfir sumarið. Hins vegar þurfi að vera á staðnum þegar brotið er framið til þess að geta staðið viðkomandi að því. Utanvegaakstur eigi sér gjarnan stað þegar aðrir sjá ekki til.

„Það er alveg ljóst að það þarf að stórauka fræðslu um utanvegaakstur og afleiðingar hans. Þær eru auðvitað bæði þær að þetta hefur oft á tíðum bæði í för með sér alvarlegar sjónrænar afleiðingar fyrir náttúruna og síðan geta hreinlega skapast alvarleg úrrennslisvandamál þar sem þessi för geta orðið að djúpum skorum þegar vatn leitar í þau, grefur sig niður í þau og býr til dýpri og ljótari sár. Einkum í halla. Mýmörg dæmi eru um slíkt,“ segir Guðmundur.

Afleiðingar utanvegaaksturs oft varanlegar

Þetta sé ef til vill eitthvað sem fólk veltir oft ekki fyrir sér þegar það stundi utanvegaakstur. Hvort sem um sé að ræða gróið eða ógróið land. Oft sé eins og sumir telji utanvegaakstur á ógrónu landi ekki skipta máli sem sé langur vegur frá að sé raunin. Landvernd hafi í gegnum tíðina reynt að vekja athygli á þessum málum. Bæði með útgáfu efnis og í gegnum fjölmiðla.

„Við höfum líka verið með verkefni í gangi þar sem við erum að taka saman aðferðir við að gera við afleiðingar utanvegaaksturs. Þó verkefnið sé alltaf fyrst og fremst að koma í veg fyrir hann þá þurfa líka að liggja fyrir upplýsingar um það með hvaða hætti megi til að mynda koma í veg fyrir meiri skemmdir á svæðum sem þegar hafa orðið fyrir þeim á sem fljótvirkastan hátt,“ segir Guðmundur.

Stundum telji fólks vafalítið að sárin lagist fljótt af sjálfu sér sem sé mikill misskilningur. „Það eru mörg dæmi um sár eftir utanvegaakstur sem hafa verið sýnileg árum saman þó reynt hafi verið að raka ofan í þau og gera þau eins ósýnileg og hægt er,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar. Ljósmynd/Landvernd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert