Undirskriftasafnarar gríðarlega sáttir

Makrílfrumvarpið var ekki afgreitt á nýliðnu þingi.
Makrílfrumvarpið var ekki afgreitt á nýliðnu þingi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við erum gríðarlega sátt við þátttökuna,“ segir Bolli Héðinsson, einn aðstandenda undirskriftasöfnunarinnar #þjóðareign. Þar er þess krafið að „forseti Íslands vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra“.

Hann segir það hafa verið alveg ófyrirséð hversu margar undirskriftir myndu safnast þegar ráðist var í söfnunina, en fjöldinn komi aðstandendum skemmtilega á óvart.

Býst ekki við að margir falli út

51.538 manns skrifuðu undir, þó von sé á að einhverjir þeirra falli út. „Tölvufyrirtækið sem tók að sér að gera þetta fyrir okkur mun samkeyra undirskriftirnar við þjóðskrá og fjarlægja það sem er óviðeigandi að hafa þarna inni. Mér skilst að í svona undirskriftasöfnunum komi fyrir að verið sé að gera eitthvað grín og álíka, en það verður séð við öllu slíku,“ segir Bolli. Hann á þó ekki von á miklu brottfalli undirskrifta. „Tölvufyrirtækið hefur farið yfir þetta jafnóðum að einhverju leyti, en þetta er bara lokayfirferð. Þetta ætti því ekki að vera mjög mikið.“

Bolli Héðinsson er einn aðstandenda undirskriftasöfnunarinnar.
Bolli Héðinsson er einn aðstandenda undirskriftasöfnunarinnar. mbl.is/Ómar

Listinn verður afhentur forseta Íslands í þarnæstu viku, þegar tölvufyrirtækið hefur farið yfir hann. Hvatinn að undirskriftasöfnuninni var makrílfrumvarp ríkisstjórnarinnar, en það var ekki afgreitt á nýliðnu þingi. Þetta segir Bolli hins vegar ekki koma að sök, enda eigi undirskriftirnar að ná til allra frumvarpa sem varða ráðstöfun fiskveiðiauðlinda til lengri tíma en árs, sé stjórnarskrárákvæðið ekki til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert