Sektin getur orðið allt að hálf milljón

Utanvegaakstur er stundaður á öllum tegundum ökutækja. Allt frá fólksbílum …
Utanvegaakstur er stundaður á öllum tegundum ökutækja. Allt frá fólksbílum upp í stóra trukka og mótorhjól. Rax / Ragnar Axelsson

Það sem af er þessu ári hefur lögreglan á Suðurlandi fengið inn á sitt borð 15 mál sem varða utanvegaakstur. Hluti þeirra hefur endað með sektum, meðan enn er verið að vinna í öðrum málum. Mjög algengt er að árvekni landvarða og almennings skili því að málin enda með sekt eða viðurlögum fyrir umhverfissóðann. Algeng sekt fyrir brot af þessu tagi er um 50 þúsund krónur en getur orðið allt að 500 þúsund. Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Fólksbílar, jeppar, mótorhjól og sandbílar

Það eru ekki bara fólk á jeppum og stórum fjallabílum sem hefur verið staðið að utanvegaakstri, en Oddur segir að allar gerðir bíla séu notaðar í slíkum atvikum. Þannig nefnir hann að á undanförnum árum hafi lögreglan á Suðurlandi fengið inn mál sem varða fólksbíla, stóra breytta jeppa, mótorhjól, jepplinga, trukka og jafnvel sandbíla (e. dune buggy).

Ekki unnt að fara daglegar eftirlitsferðir

Oddur segir að aukning ferðamanna hér á landi undanfarin ár kalli á aukið eftirlit, en að því miður hafi ekki verið hægt að fylgja þessari miklu aukningu eftir, hvorki á hálendinu eða láglendinu. Bendir hann á að aðeins séu þrír bílar í umdæminu, á Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Hvolsvelli, sem geti keyrt yfir ár og séu búnir undir að keyra á hálendinu. Segir hann að ekki sé unnt að fara daglegar eftirlitsferðir á hálendið heldur megi frekar tala um að farið sé vikulega. Þá sé ekki um fasta viðveru á hálendinu að ræða, ef frá er talin mönnun við Holuhraun á Norðurlandi.

Miðað við mikinn fjölda af öðrum sektum, svo sem hraðasektum, sem ferðamenn fá segir Oddur aftur á móti líklegt að brot ferðamanna við akstur, t.d. utanvegaakstur, séu talsvert fleiri og sú mikla aukning sem hafi orðið undanfarin ár kalli á aukna gæslu á hálendinu.

Bætt fjarskipti á hálendinu hjálpa mikið

Sem fyrr segir er algengast að almenningur eða landverðir hafi samband við lögregluna og láti vita af utanvegaakstri. Oddur segir að flestir séu með myndavélar í dag og að myndataka af verknaðinum geti verið grundvallarmál varðandi sönnun málsins. Bætt fjarskipti á hálendinu er einn af stærstu áhrifavöldunum í þessu samhengi, en Oddur segir að nú geti fólk oft hringt inn strax og það sjái brotin, í stað þess að hringja kannski 2-3 dögum seinna, þegar það kemur niður í byggð aftur til að láta vita af stöðu mála. Þetta geri það að verkum að tilkynningarnar séu bæði fleiri og árangursríkari en áður.

Getur verið erfitt að ná í ferðamenn

Stutt viðverða ferðamanna á landinu getur verið vandamál þegar kemur að því að klára málin hérlendis, sérstaklega þegar lögreglan stendur ökumanninn ekki að verknaðinum sjálf. Oddur segir að reynt sé að skoða og skrá mál strax. Beint í framhaldi af tilkynningu sé haft samband við skráðan eiganda bifreiðarinnar, sem oft séu bílaleigur. Þeim sé skylt að gefa upp ökumann bifreiðarinnar og í framhaldinu er reynd að hafa upp á ökumanninum. Bendir hann á nýlegt dæmi þar sem lögreglan á Húsavík fékk upplýsingar um ökumann sem hafði keyrt utan vegar. Þegar haft var samband við ökumanninn var hann á Suðurlandi og endaði með að koma á lögreglustöðina á Selfossi þar sem hann gekkst við broti um utanvegaakstur og greiddi sekt upp á 150 þúsund krónur. Segir Oddur að það hafi í raun verið þrjár sektir, hver upp á 50 þúsund.

Aðspurður um algengar upphæðir í þessu sambandi segir hann að þær geti verið frá 10 þúsund upp í 500 þúsund, en algeng tala sé um og yfir 50 þúsund krónur.

Allt landið undir

En er utanvegaakstur stundaður sérstaklega á einhverjum ákveðnum stöðum? Oddur segir svo ekki vera og að enginn staður sé algengasti brotastaðurinn. „Það er allt undir, Kjalvegur, Fjallabak nyrðra, Fjallabak syðra og Skaftafellssýslurnar,“ segir hann. Sú upplýsingagjöf og fræðsluátak sem ráðist hefur verið í á síðustu árum er þó að hans sögn mjög jákvæð þróun. Segir hann að margar bílaleigur séu til fyrirmyndar varðandi bæklinga og upplýsingagjöf til ferðamanna, en í grunninn sé þetta þó endalaust verkefni og forvarnarstarf sem þarf að vinna og skilar á endanum árangri.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi
Langan tíma getur tekið fyrir sár sem þessi að lagast …
Langan tíma getur tekið fyrir sár sem þessi að lagast og geta þau haft mikil áhrif á veikan gróðurinn. Arnar Hafsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert